Bók um Alla Rúts kemur út fyrir jólin

alliruts

Seinna í mánuðnum kemur út ævisaga hins eina sanna Alla Rúts. Hann er Mosfellingum að góðu kunnur enda rekið Hótel Laxnes og Áslák í þó nokkur ár. Lesblindur drengur flosnar upp úr námi á Siglufirði og verður einn mesti braskarinn á Íslandi; rekur hér stærstu bílasöluna, flytur út hesta í tugatali og kemur sér bæði í og úr vandræðum eins og honum sé borgað fyrir það. Hér er skyggnst inn í heim sem fáir þekkja til — heim Alla Rúts — sem fékk ódrepandi sjálfstraust og dugnað í vöggugjöf og lætur ekkert buga sig. Hann kemur við á mörgum sviðum mannlífsins, tekur stundum dýfur, en lendir þó alltaf standandi. Höfundur bókarinnar er Helgi Sigurðsson sagnfræðingur og dýralæknir en það er Bókaútgáfan Hólar sem gefur út. Meðal þess sem kemur fram í bókinni: Voveiflegir atburðir verða í Fljótum. Sprúttsali festir tappana ekki vel. Landsþekktur danskennari er hrekktur. Jeppi er pikkfastur í Meyjarhafti. Tunnuverksmiðjan brennur. Rangur brandari er sagður á réttum stað. Bankastjóri þiggur mútur. Hauskúpa veldur uppþoti í tollinum. 112 milljónir óvart lagðar inn á bankareikning. Forsætisráðherrann segir ósatt. Gjaldþrot verður — og ekki bara eitt. Túristar vaktir með brunabjöllu og svona mætti lengi telja.