Óvissu eytt um rekstur Skálatúns
Á dögunum voru undirritaðir samningar varðandi framtíðaráform á Skálatúni.
Samningarnir marka tímamót bæði fyrir rekstur heimilisins sem þar hefur verið rekið í áratugi en einnig fyrir framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Mosfellsbær mun nú taka við rekstri Skálatúns. Það þýðir meðal annars að starfsfólk Skálatúns verður framvegis hluti af starfsliði Mosfellsbæjar. Samningarnir tryggja að íbúar Skálatúns geti áfram búið þar en mörg þeirra hafa haft búsetu á Skálatúni frá barnæsku. Þar með er búið að eyða þeirri óvissu sem verið hefur um rekstur heimilisins um nokkurt skeið.
Um er að ræða talsvert flókna samninga þar sem margir koma að. Á síðustu árum hafa verið gerðar nokkrar atlögur að því að leysa málin sem snúast bæði um erfitt rekstrarumhverfi í málaflokki fatlaðs fólks en einnig um áratugalanga sögu heimilisins að Skálatúni.
Það er því mikill léttir fyrir alla hlutaðeigandi að komin sé niðurstaða í málið. Að okkar mati eiga allir sem komu að þessum samningum miklar þakkir skilið og það var lykilatriði að bæjarstjórnin stæði einhuga á bakvið samningana.
En þó langar okkur að nefna sérstaklega framlag mennta- og barnamálaráðherra og bæjarstjóra Mosfellsbæjar sem leiddu þessa vinnu af mikilli hugsjón og auðmýkt gagnvart öllum hlutaðeigandi.
Verkefni án hliðstæðu
Varðandi framtíðaráform á svæðinu þá var einnig skrifað undir viljayfirlýsingu milli Mosfellsbæjar og mennta- og barnamálaráðuneytis um uppbyggingu á starfsemi á svæðinu sem verður í þágu barna og ungmenna.
Þetta þýðir að á Skálatúnsreitnum er ætlunin að byggja upp aðstöðu fyrir stofnanir og samtök sem vinna í þágu barna, svokallaða Barnadeiglu. Þetta er uppbyggingarverkefni án hliðstæðu hér í Mosfellsbæ. Um er að ræða sérstakan þjónustukjarna sem á að halda utan um þær stofnanir sem koma að þjónustu við börn af öllu landinu.
Fjöldi starfa flyst í Mosfellsbæ
Hugmyndin er að skapa aðstöðu sem er til þess fallin að efla samstarf og auðvelda aðgengi með því að hafa alla þessa þjónustu á einum stað. Þetta mun hafa í för með sér gríðarlega atvinnuuppbyggingu í Mosfellsbæ og fjölda starfa sem mun flytjast í bæinn.
Orð eru til alls fyrst og það er mikilvægt að vera með framtíðarsýn og metnaðarfull áform fyrir bæinn okkar. Hvort sem um er að ræða atvinnuuppbyggingu eða þjónustu við fatlað fólk. Í framhaldi af þessum ákvörðunum er mikilvægt að halda áfram að vanda sig og hafa hagsmuni íbúanna að leiðarljósi við þessar breytingar. En við erum vongóð um að uppbygging sé fram undan enda býður þetta landsvæði upp á mikil tækifæri til þess að búa til magnaða umgjörð sem snýr að því að auka samtal og samvinnu þvert á kerfi og stofnanir í þágu barna og ungmenna á landinu öllu.
Halla Karen Kristjánsdóttir, Aldís Stefánsdóttir, Sævar Birgisson og Örvar Jóhannsson.
Bæjarfulltrúar Framsóknar í Mosfellsbæ.