Leiguíbúðir við Þverholt

Anna Sigríður Guðnadóttir

Árið 2014 tók bæjarstjórn þá sameiginlegu ákvörðun að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að efla almennan leigumarkað í Mosfellsbæ og auka þannig við fjölbreytta búsetukosti fyrir bæjarbúa.
Hugsunin var að fólk gæti fengið öruggt leiguhúsnæði til lengri tíma í bænum. Þá var einnig í umræðunni að bærinn gæti fengið leiguhúsnæði fyrir sína skjólstæðinga enda er viðvarandi biðlisti eftir húsnæði á vegum bæjarins.
Bærinn ákvað að nýta lóð í sinni eigu á besta stað í bænum, í göngufjarlægð frá verslun og þjónustu og með almenningssamgöngur nánast við húsvegginn ásamt frábæru útsýni.
Bærinn auglýsti lóðirnar við Þverholt með kvöðum um leiguíbúðir og var lóðunum úthlutað til fyrirtækis sem síðar kom í ljós að hafði ekki burði til að sinna verkefninu eins og það lá fyrir. Fyrirtækið Bakki sem einnig hafði boðið í verkefnið gekk þá inn í samkomulagið. Eftir því sem verkefninu hefur undið fram hefur fyrirtækið leitað til bæjaryfirvalda um að fá kvöðum aflétt og fá þannig tækifæri til að selja íbúðirnar til einkaaðila og innleysa þannig ábatann strax.
Til að koma til móts við óskir félagsins var gert samkomulag á árinu 2019 um að flytja leigukvaðir af lóðum 27-29, nema 6 íbúðum, yfir á lóðir 21-23 ásamt því að fest var í samning, að frumkvæði Bakka, að leiguverð yrði sambærilegt við útleigu hjá Félagsstofnun stúdenta.
Í sumar kom fyrirtækið aftur til bæjaryfirvalda og vildi niðurfellingu allra leigukvaða. Fyrirtækið tiltók í beiðni sinni árangurslausar viðræður við ýmsa aðila um að kaupa og reka íbúðirnar samkvæmt samningnum. Bærinn sjálfur hefur ekki átt aðild að þeim viðræðum, svo vitað sé, þannig að ekki hefur reynt á að bærinn ræddi við þessa aðila um einhverjar lausnir á vanda Bakka. Því vandinn er Bakka en ekki bæjarfélagsins.
Meirihluti Vinstri grænna og sjálfstæðismanna bauð fyrirtækinu að ganga að flestum kröfum þess þannig að leigukvöðum verði aflétt strax af lóðum 21 og 27-31 en varðandi Þverholt 23, þá skuli kvaðirnar gilda í 15 ár en þó geti Bakki óskað endurskoðunar eftir 5 ár. Miðað við hvernig þetta mál hefur verið unnið verða engar leiguíbúðir á þessum lóðum eftir 5 ár og ekkert eftir af upphaflegri ákvörðun bæjarstjórnar.

Ólafur Ingi Óskarsson

Upphafleg ákvörðun bæjarins gekk út á að efla almennan leigumarkað, stuðla að leiguöryggi og fjölbreyttum búsetukostum í bænum. Þess vegna var umræddri lóð við Þverholt úthlutað með íþyngjandi kvöðum. Af þessari verðmætu lóð á besta stað í bænum voru greidd lögbundin gatnagerðargjöld og byggingarréttargjald eins og af öðrum byggingum í bænum. Byggingarlóðir í eigu bæjarins innan þéttbýlis eru takmörkuð auðlind og mikilvægt að bærinn gæti vel að eigin hagsmunum við úthlutun þeirra gæða.
Þess vegna hefði legið beint við þegar meirihluti VG og sjálfstæðismanna vildi falla frá leigukvöðum á umræddum lóðum að kveðja til óvilhalla matsmenn til að meta virði umræddra lóða við Þverholt og horfa þá til staðsetningar á besta stað í bænum. Þannig að Bakki myndi þá greiða markaðsverð fyrir lóðirnar án íþyngjandi kvaða hvert sem það verð er.
Það hryggir okkur að vinir okkar í Vinstri grænum skuli nú hverfa endanlega frá upphaflegu hugmyndinni um að huga að almennum hagsmunum leigjenda um öruggt, varanlegt leiguhúsnæði í Mosfellsbæ. En kannski er ekki við öðru að búast af VG þar sem hreyfingin hefur verið sammála sjálfstæðismönnum í Mosfellsbæ í einu og öllu í a.m.k. 14 ár.
Við erum ósammála meirihlutanum um langtímahagsmuni bæjarins í þessu máli. Við teljum langtímahagmunum íbúa Mosfellsbæjar best borgið með því að standa við þá ákvörðun sem tekin var um uppbyggingu leiguhúsnæðis með þeim kvöðum sem nú eru í gildi og höfnum þeirri niðurstöðu sem VG og sjálfstæðismenn komust að.

Anna Sigríður Guðnadóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar
Ólafur Ingi Óskarsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingar