Óskað eftir því að Kirkjukór Lágafellssóknar hætti

Sungið í Lágafellskirkju fyrir nokkrum árum.

„Okkur var sagt á síðustu æfingu að við værum rekin,“ segir Valgerður Magnúsdóttir formaður Kirkjukórs Lágafellssóknar.
„Ég er búin að vera alveg miður mín yfir þessu og ekki sofið hálfan svefn. Þó svo að mörg okkar séu orðin fullorðin þá getum við sungið, þó vissulega hefði endurnýjun í kórnum getað verið markvissari.
Við eigum ekki skilið svona framkomu. Ég tek þetta mjög nærri mér,“ segir Vallý en kórinn var stofnaður árið 1948.
Margir kórfélaganna hafa haldið tryggð við kórinn og kirkjuna í tugi ára.

Haldið áfram að leita farsælla lausna
Samkvæmt kórfélögum voru þeim færðar þessar döpru fréttir á æfingu þann 11. febrúar og ekki hefur verið sungið síðan. Þá hafi organistinn sagt við þau að þau skyldu hætta. Kórinn væri ekki nægilega góður og orðinn of gamall.
Greinilegir samstarfsörðugleikar eru þarna á milli og hefur kórinn gefið það út að hann muni ekki syngja áfram undir sömu stjórn eftir þessa uppákomu.
Nálgast nú annasaman tíma í kirkjunni með fermingum og páskum.
Sáttafundur var haldinn rétt áður en blaðið fór í prentun og að sögn sóknarnefndar var fundurinn árangursríkur. „Haldið verður áfram að leita farsælla lausna.“