Öll skólamannvirki Mosfellsbæjar skimuð fyrir raka
Ekkert sveitarfélag lagt í jafn viðamiklar aðgerðir.
Vorið 2019 lagði meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna til við bæjarstjórn að allt skólahúsnæði Mosfellsbæjar yrði skimað fyrir rakaskemdum og hugsanlegum örveruvexti tengdum þeim.
Ekkert sveitarfélag á landinu hefur lagt í svo viðamiklar aðgerðir til að kanna ástand skólastofnana sinna. Töluverð umræða hefur verið um ástand skólahúsnæðis bæði hér í Mosfellsbæ og annars staðar. Vegna efasemda um heilsufarsvottorð mannvirkjanna ákvað meirihlutinn að láta kanna málið til hlítar. Tillagan var samþykkt einróma af bæjarstjórninni allri.
Sjö leikskólar, tveir grunnskólar og báðar íþróttamiðstöðvarnar
Umhverfissviði bæjarins var falið að láta framkvæma skoðun á öllu skólahúsnæði Mosfellsbæjar m.t.t rakaskemmda og hugsanlegs örveruvaxtar þeim tengdum. Enn fremur var samþykkt að láta gera reglulegar loftgæðamælingar.
Heildarúttektin var boðin út og á endanum samið við EFLU verkfræðistofu og Orbicon um úttekt á mannvirkjunum. Orbicon tók út leikskólana Hulduberg, Höfðaberg, Leirvogstunguskóla, Hlíð, Haðhamra og Reykjakot ásamt Íþróttamiðstöðinni að Lágafelli. EFLA verkfræðistofa tók út Krikaskóla, Lágafellsskóla og Íþróttamiðstöðina að Varmá. Áður hafði EFLA verfræðistofa tekið út allar byggingar Varmárskóla.
Nú liggja niðurstöður fyrir og á heildina litið kom skoðun frá báðum aðilum vel út bæði hvað varðar loftgæði og ástand mannvirkja með tilliti til rakaskemmda. Um var að ræða skimun á loftgæðum ásamt rakamælingum og sjónskoðun eftir sýnilegum rakaummerkjum. Unnið var eftir því hefðbundna verklagi að fara einvörðungu í sýnatöku þar sem ástæða þótti til að lokinni sjónskoðun.
Farið var ítarlega yfir alla leikskólana og íþróttamiðstöðvarnar báðar þ.e að Varmá og Lágafelli. Má nefna að í skýrslum úttektaraðilanna kemur fram að dúkur á eldhúsum leikskólanna er ekki heppilegt gólfefni og verður dúknum skipt út. Einnig skal tekið fram að viðgerðir á þaki íþróttahúsnæðisins að Varmá eru þegar hafnar enda verið á viðhaldsáætlun bæjarins um tíma.
Endurbætur og viðhald á viðhaldsáætlun
Eins og áður var nefnt koma niðurstöður skimunar koma heilt yfir vel út og úrbótum verður forgangsraðað í samræmi við tillögur ráðgjafa. Tekið skal fram að viðgerðir eru þegar hafnar á stærstu verkefnunum eins og þak– og gluggaviðgerðum á Varmárskóla en skólinn hefur verið stórlega endurbættur síðastliðin ár, bæði að utan og innan. Mosfellsbær gerir viðhaldsáætlun ár hvert og hefur fjármagn til viðhalds bygginga bæjarins aukist umtalsvert undanfarin ár.
Verkefnum næstu missera hefur verið forgangsraðað
Unnið hefur verið úr niðurstöðum úr skýrslum EFLU verkfræðistofu og Orbicon og verkefnum forgangsraðað á grunni mats sérfræðinga. Verkefnið mun halda áfram út þetta ár og fram til ársins 2021. Með því að fara í svona viðamikla skimun hefur Mosfellsbær sýnt ákveðið frumkvæði í þessum efnum á landsvísu.
Meirihluti bæjarstjórnar hefur sýnt dug í að ráðast í svo mikið verkefni sem hér um ræðir enda er það markmið að vera ávallt fremst í flokki þegar kemur að skólamálum á Íslandi, bæði hvað varðar innra starf og gæði húsnæðis.
Kolbrún G. Þorsteinsdóttir,
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar