Öll blöð Mosfellings frá árinu 2002 aðgengileg á timarit.is

mosfellingur-forsíður2

Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings.

Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings.

Bæjarblaðið Mosfellingur hefur verið gefið út frá árinu 2002. Nú eru öll tölublöð frá upphafi aðgengileg á timarit.is en það er Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem rekur vefinn.
Mosfellingur gerði samning við Landsbókasafnið í vetur um varðveislu alls efnis á timarit.is og hefur sú vinna staðið yfir ásamt skönnun á elstu tölublöðunum.
Nú eru hátt í 300 blöð Mosfellings aðgengileg á stafrænu formi á vefnum.

Öflug leitarvél á vefnum
„Við erum að skrifa hina nýju sögu Mosfellsbæjar,“ segir Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings. „Það er ánægjulegt að blöðin séu komin í trausta varðveislu og aðgengileg öllum hvenær sem er. Þetta eru miklar og sögulegar heimildir bæði í texta og myndum síðastliðin 17 ár.“
Öflug leitarvél er á vefnum og hægt er að prenta út valdar síður. Notendur geta leitað í gagnagrunninum að efni sér til fróðleiks og skemmtunar.

Yfir 8.000 blaðsíður í stafrænu formi
„Blaðsíður Mosfellings á timarit.is telst okkur að séu komnar yfir 8.000 talsins þannig að það má alveg gleyma sér yfir þeim.
Auk frétta úr bæjarlífinu hverju sinni eru viðtöl Ruthar Örnólfsdóttur, Mosfellingurinn, nú orðin 200 og Heilsumolar Gaua, Guðjóns Svanssonar að verða 100 talsins. Þá eru gömlu myndirnar í umsjón Birgis D. Sveinsson orðnar óteljandi og allar myndirnar hans Ragga Óla ómetanlegar, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Hilmar.
Framvegis verða blöðin uppfærð á nokkurra mánaða fresti eftir því sem tækifæri gefst til. Einnig má minna á heimasíðu blaðsins www.mosfellingur.is þar sem finna má vefútgáfu af nýjasta tölublaði Mosfellings auk þess sem birtar eru helstu fréttir úr blaðinu á vefsíðunni.

—-

Tímarit.is er stafrænt safn sem veitir aðgang að milljónum myndaðra blaðsíðna á stafrænu formi af þeim prentaða menningararfi sem varðveittur er í blöðum og tímaritum. Aðgangur er öllum opinn og stuðst er við nýjustu tækni í geymslu og miðlun upplýsinga.