Lýðræðisverkefnið Okkar Mosó sett á laggirnar
Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur ákveðið að fara af stað með lýðræðisverkefnið Okkar Mosó á árinu 2017.
Verkefnið er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ. Gert er ráð fyrir að 25 milljónum króna verði varið í að framkvæma þær hugmyndir sem fá brautargengi.
Kosið í rafrænni kosningu
Óskað verður eftir snjöllum hugmyndum frá íbúum sem síðan verður kosið um í rafrænni íbúakosningu. Hugmyndirnar geta varðað leik- og afþreyingarsvæði íbúa, vistvænar samgöngur, bætta lýðheilsu eða umhverfið almennt.
Hægt verður að skila inn hugmyndum rafrænt í þar til gerðu kerfi sem verður aðgengilegt á heimasíðu Mosfellsbæjar.
Verkefnið í heild er í fjórum fösum. Hugmyndasöfnun, umræða um hugmyndir og úrvinnsla, kosningar og framkvæmd.
>> Hugmyndasöfnunin hefst 1. febrúar næstkomandi og allar upplýsingar um verkefnið verður að finna á heimasíðu Mosfellsbæjar www.mos.is.