Nýtum kosningarétt okkar
Kæru Mosfellingar!
Dagana 7.–21. er vefur samráðsverkefnisins Okkar Mosó opinn fyrir tillögum íbúa. Með þátttöku í verkefninu geta bæjarbúar haft áhrif á forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ.
Í ár er gert ráð fyrir 35 milljónum króna í framkvæmdirnar og hækkar fjármagnið um 10 milljónir króna milli ára en í málefnasamningi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna var samþykkt að setja meira fjármagn í lýðræðisverkefnið Okkar Mosó.
Verkefnið byggir á hugmyndum um umræðulýðræði, þátttökulýðræði og þátttökufjárhagsáætlunargerð og því er ætlað að virkja aðkomu almennings að ákvarðanatöku við framkvæmdir sem snerta nærumhverfi sitt.
Verkefnið gekk vonum framar árið 2017 en 14% íbúa nýttu kosningarétt sinn. Í ár stefnum við á að gera betur og vonumst eftir 20% kjörsókn.
Fyrsta skref verkefnisins er áðurnefnd hugmyndasöfnun en allir íbúar Mosfellsbæjar 16 ára og eldri geta komið með tillögur á því stigi. Skora ég því á íbúa að skila inn hugmyndum á vefnum https://okkar-moso.betraisland.is en Mosfellsbær verður allur eitt svæði bæði í hugmyndasöfnun og kosningu.
Árið 2017 komu margar skemmtilegar hugmyndir frá bæjarbúum og urðu 10 þeirra að veruleika, til dæmis fuglaskoðunartígur meðfram Leirvoginum, blakvöllur á Stekkjarflöt og vatnsbrunnar og loftpumpur á hjólastígum bæjarins.
Tökum öll þátt og gerum góðan bæ enn betri.
Una Hildardóttir formaður lýðræðis- og mannréttindanefndar Mosfellsbæjar.