Nýr vatnstankur í hlíðum Úlfarsfells tekinn í notkun
Nýlega lauk framkvæmdum við byggingu vatnstanks í Úlfarsfellshlíðum. Bygging tanksins er nauðsynlegur hluti af þeim vexti sem orðið hefur í Mosfellsbæ á síðustu árum enda eru bæjarbúar nú um 13 þúsund og fer fjölgandi.
Vatnsgeymirinn eykur þrýsting á neysluvatni fyrir hverfin austan Vesturlandsvegar og er í 130 metra hæð yfir sjó. Við smíði, frágang og landmótun var leitast við að fella tankinn eins mikið inn í landið og frekast er kostur og ekki verður annað sagt en að það hafi tekist með eindæmum vel eins og sést á meðfylgjandi mynd. Samhliða þessari framkvæmd varð til framkvæmdarvegur og tækifærið var nýtt til þess að byggja upp eldri reiðstíg.
Lætur ekki mikið fyrir sér fara í hlíðinni
Þeir Ólafur Kristinn Magnússon og Þorsteinn Kröyer frá verktakanum Alefli afhentu Haraldi Sverrissyni, bæjarstjóra Mosfellsbæjar, mannvirkið til rekstrar þriðjudaginn 5. október.
„Eitt af markmiðum Mosfellsbæjar er að byggð falli vel að landi, náttúru og bæjarbragnum. Þá látum við umhverfið okkur varða og sinnum málaflokknum af kostgæfni eins og metnaðarfull umhverfisstefna okkar sýnir vel. Þessi vatnstankur kúrir í hlíðum Úlfarsfells og lætur ekki mikið yfir sér en eykur rekstraröryggi vatnsveitu Mosfellsbæjar til mikilla muna og Alefli hefur skilað af sér mjög góðu verki,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.