Ný heilsugæslustöð opnar 29. mars
Heilsugæsla Mosfellsumdæmis vinnur nú að því að flytja starfsemi sína úr Kjarnanum í Sunnukrika 3 og er ráðgert að opna á nýjum stað mánudaginn 29. mars. Síðar í apríl verður svo formlegri opnun með hátíðarbrag.
„Þetta verður algjör bylting á starfsaðstöðunni fyrir okkur,“ segir Dagný Hængsdóttir svæðisstjóri Heilsugæslu Mosfellsumdæmis. „Húsnæðið býður upp á tækifæri til að vinna betur í teymisvinnu og stöðin er hönnuð með það í huga að nánara samstarf verði milli hjúkrunarfræðinga og lækna.“
Plássið farið að há starfseminni
„Þetta verður mikil breyting fyrir starfsfólkið en ekki síður fyrir þá sem nýta sér þjónustuna,“ bætir Hörður Ólafsson við en hann er fagstjóri lækninga. Þjónustan verður betri og vinnuaðstaðan gjörbreytist. Þar af leiðandi getum við breytt öllu verklagi og bætt við fleira fólki eftir þörfum.“
Nýja heilsugæslustöðin er hugsuð til framtíðar með pláss til að geta vaxið enn frekar í takt við bæjarfélagið. Plássleysið var farið að há starfseminni í Kjarna. Gert er ráð fyrir að lágmarki 10 læknum og vonast er til þess að nýja stöðin verði eftirsóttur vinnustaður og sveitarfélaginu til sóma en gert er ráð fyrir að hægt verði að sinna 12−15 þúsund manns.
Staðan batnað að undanförnu
„Því er ekki að leyna að við höfum verið undirmönnuð af læknum en staðan hefur batnað mjög að undanförnu þótt við séum ekki alveg orðin fullmönnuð,“ segir Dagný og bætir við að flutningar á nýjan stað með bættri aðstöðu muni hjálpa þar mikið til.
„Við vorum að bæta við síðdegisvakt á föstudögum þannig að hún er nú starfrækt alla virka daga kl. 16-17. Á morgnana erum við með stutta hraðvakt kl. 8:00-9:30 með svipuðu fyrirkomulagi. Þá erum við einnig með skyndimóttöku allan daginn og fólk getur alltaf komið ef nauðsyn krefur. Einnig erum við með öfluga símaþjónustu og svo getur fólk auðvitað pantað sér tíma ef þannig ber undir.“
Flottasta heilsugæslan á landinu
Heilsugæslan hefur verið starfrækt í Kjarnanum í um 20 ár, frá því íbúafjöldi var um 5.000, þar til nú þegar bæjarbúar eru að verða 13.000. Það er því ljóst að húsnæðið sem nú þjónar umdæminu, 700 m², er löngu sprungið.
Nýja stöðin verður hinsvegar 1.220 m² og mun gjörbylta allri aðstöðu. „Það er ekki hægt að líkja þessu saman. Stöðin verður öll nútímalegri og vinnuaðstaða fyrir starfsfólk og aðkoma fyrir skjólstæðinga verður allt önnur. Þetta verður flottasta heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu og líklega á landinu og það er mikil tilhlökkun í okkar herbúðum,“ segir Dagný Hængsdóttir svæðisstjóri Heilsugæslu Mosfellsumdæmis sem þjónar fyrst og fremst Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjósarhreppi, en allir eru velkomnir á stöðina.
Í sama húsi í Sunnukrika 2 mun opna apótek og önnur heilsutengd þjónusta, Nettó, kjötbúð og þá verða einnig íbúðir fyrir 60 ára og eldri í turninum.