Ný bók frá Bjarka Bjarnasyni

bjarkitíminn

Bjarki Bjarnason hefur sent frá sér bókina Tíminn snýr aftur sem hefur að geyma örsögur og ljóð.
„Undirtitill bókarinnar er örsöguljóð,“ segir höfundurinn í viðtali við Mosfelling. „Oft eru óljós mörk á milli þessara bókmenntagreina. Ég skipti henni í nokkra hluta, sem bera kunnugleg nöfn, svo sem Hagfræði, Biblíusögur og Landbúnaður. En þegar betur er að gáð liggur hér fiskur undir steini.
Eitt grunnstefið er í raun og veru tíminn og hugleiðingar mínar um hann. Við getum ekki upplifað liðið andartak, ekki bókstaflega. Sú stund kemur aldrei aftur en á hinn bóginn erum við iðulega að endur­lifa horfna lífsreynslu, tíminn er lúmskt fyrirbæri og snýr oft aftur í einhverri mynd. Það er hugsunin á bakvið titil bókarinnar.“
Bjarki hefur sent frá sér um 20 bækur af ýmsum toga á sínum ferli, sagnfræðirit, skáldverk, barnabækur og ljóð.
„Ég hef ekki viljað binda mig við eitt bókmenntaform en hef sérstakt dálæti á að feta fíngerða slóð á milli sagnfræði og skáldskapar, á milli ímyndunar og svokallaðs raunveruleika. Því hvað er sannleikur þegar öllu er á botninn hvolft?“
Vilborg Bjarkadóttir myndskreytti bókina, Gunnhildur Edda Guðmundsdóttir sá um hönnun og umbrot en útgefandi er Bókaútgáfan Sæhestur.