Nokkur orð um leikskóla
Nú þegar kosningabaráttan er að líða undir lok langar mig að nefna eitt málefni sem hefur ekki fengið mikla umræðu – leikskólamálin.
Í Mosfellsbæ komast flest börn inn í dagvistun við 12 mánaða aldur, það er vel gert og má segja að bærinn standi sig betur þar en sum önnur sveitarfélög.
Það sem við þurfum að skoða á komandi misserum eru starfsaðstæður inni í leikskólunum, hvernig búið er að börnunum og hvernig hægt er að fjölga menntuðum leikskólakennurum.
Einnig þarf að skoða sérstaklega varanlega lausn á leikskólahúsnæði í Leirvogstungu – við getum ekki talið það lausn við hæfi að hafa einn leikskóla í færanlegum kennslustofum.
Það er erfitt að nálgast tölur um fagmenntaða leikskólakennara sem starfa hjá bænum en eftir því sem ég kemst næst er hlutfallið um 20-25%. Í samningum leikskólakennara er kveðið á um tiltekna tíma í starfi með börnum og aðra tiltekna tíma sem fara í faglegt starf, eins og undirbúning.
Deildarstjóri á leikskóla fær, svo dæmi sé tekið, 10 tíma í undirbúning á viku. Aðrir kennarar fá 5 tíma og eiga að skila sömu útkomu í faglegu starfi.
Það að starfa í skóla er hópvinna, ef einn veikist þarf að leysa hann af og þá stíga samstarfsmenn inn í. Þann tíma taka þeir af sínum undirbúningstíma sem aftur þýðir að þeir mæta óundirbúnir til að sinna sínum hópi. Það hefur bein áhrif á faglegt starf í skólum.
Stytting vinnuvikunnar hefur haft gríðarleg áhrif inn í leikskólum. Tökum sem dæmi, 20 starfsmenn taka út styttingu, færri eru að störfum, börnin eru jafnmörg og þeim þarf að sinna.
Það á að veita sömu þjónustu, með sama opnunartíma en með færra starfsfólki.
Aðstæður leikskólabarna í bænum eru mismunandi. Nýrri leikskólar ná að bjóða upp á rými barna til athafna samkvæmt leiðbeiningum frá Félagi leikskólakennara en í eldri leikskólum er þrengra um hópinn.
Sérstaklega vil ég benda á húsakost Leirvogstunguskóla, en skólastarfið þar fer fram í færanlegum kennslustofum.
Við getum ekki horft á aðstæður skólans, húsnæðislega séð með öðrum gleraugum en þeim að þetta sé tímabundið úrræði. Við hjá Vinum Mosfellsbæjar teljum afskaplega mikilvægt að farið sé í þá vinnu að byggja upp varanlegt skólahúsnæði í hverfinu.
Til að hlúa faglega að leikskólastarfinu í bænum þarf að taka tillit til mikils álags vegna veikinda starfsfólks og styttingar vinnuvikunnar.
Við þurfum að skoða hvernig við getum gert starfsumhverfið hjá leikskólum bæjarins aðlaðandi og eftirsóknarvert. Til að það geti gerst þurfum við að fara í naflaskoðun og fá liðsinni stjórnenda leikskólans.
Við þurfum að standa við bakið á stjórnendum og létta af þeim ákveðnum verkefnum svo þeir geti verið faglegir leiðtogar í sínu húsi.
Það þarf að jafna aðstöðumun barnanna í bænum, öll okkar börn eiga að vera í góðu, varanlegu húsnæði, með jafnmikið rými til athafna. Þá horfum við sérstaklega til eldra skólahúsnæðis og skólahúsnæðis Leirvogstunguskóla.
Börn eru best – hlúum að þeim eins vel og við getum, þar sem allir sitja við sama borð.
Dagný Kristinsdóttir skipar 1. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar