Leitin að miðbænum

Anna Sigríður Guðnadóttir

Forsendubreytingar í skipulagsmálum
Mosfellsbær hefur verið í miklum vexti undanfarin ár og nú lítur út fyrir að á næstu árum muni eiga sér stað enn meiri uppbygging innan bæjarfélagsins.
Áætla má að fjöldi bæjarbúa verði kominn yfir 30.000 eftir um 20 ár. Þegar svona stendur á er nauðsynlegt að staldra við og spyrja hvort ekki hafi orðið forsendubreytingar hvað varðar miðbæjarskipulag bæjarins.
Hver er þörfin á næstu árum og hvað kemur fram í núverandi skipulagi? Tekur miðbæjarskipulagið á komandi innviðaþörfum og þjónustuóskum bæjarbúa? Hvar verður endastöð borgarlínunnar og er gert ráð fyrir skiptistöð fyrir innanbæjarvagn? Er ennþá gert ráð fyrir kirkju í miðbænum eins og um var talað á sínum tíma? Hvar endar og byrjar miðbærinn? Það eru margar spurningar sem brenna á fólki, en það stendur oft á svörunum.

Óljós uppbyggingarstefna
Þegar farið er inn í skipulagssjá koma í ljós fjögur deiliskipulög sem ná yfir það svæði sem mætti túlka sem miðbæ Mosfellsbæjar. Við þau skiplög eru síðan fjölmargar stakstæðar skipulagsbreytingar undir viðkomandi skipulögum, sem komið hafa til vegna breytinga og óska lóðarhafa. Þetta leiðir til þess að uppbyggingarstefnan er óljós, sundurslitin og missir marks.

Ómar Ingþórsson

Leitin að miðbænum mun því halda áfram um nokkurt skeið, nema við tökum þá stefnu að marka skýra og heildstæða sýn hvað varðar uppbyggingu til næstu ára.
Samfylkingin vill marka skýra stefnu hvað varðar skipulag miðbæjarins, uppbyggingaráform innan áhrifasvæðis hans og varða leiðina með áfangaskiptingu. Það að uppfæra stakstæð skipulög eftir óskum lóðarhafa kemur okkur ekki upp úr hjólförum gamalla skipulagshugmynda. Hér er ekki nóg að segja; er ekki bara best að gera eins og við höfum alltaf gert! Hér er þörf á breytingum.

Hvað þarf til – hvert er ferlið fyrir skipulagssamkeppni
Það er nauðsynlegt að endurskoða öll þau deiliskipulög sem ná til þess svæðis sem afmarkað er í aðalskipulagi sem miðbær Mosfellsbæjar. Í þessum deiliskipulögum er margt sem má halda í en annað er úr takti við óskir og þarfir íbúa og er nauðsynlegt að víki. Áður en þessi endurskoðun getur farið fram þarf að skilgreina hvaða þjónustu og starfsemi við Mosfellingar viljum sjá í miðbænum.

Samfylkingin telur það best gert með opnu samtali við þá sem nýta sér þá þjónustustarfsemi sem er í miðbænum og þeirra sem veita hana. Þetta væri best gert í gegnum opið íbúaþing sem og rýnihópa um uppbyggingu miðbæjarins og með aðkomu lóðarhafanna sjálfra.
Þegar þessar óskir og forsendur liggja fyrir er kominn grundvöllur til þess að fara í skipulagssamkeppni, sem við hjá Samfylkingunni teljum eina af meginforsendunum fyrir heildstæðri uppbyggingu á nýjum miðbæ.

Skipulagssamkeppni er því aðferð til þess að móta heildstæða sýn en samtímis draga fram þau tækifæri sem kunna að skapast við þær forsendubreytingar sem verða með fjölgun bæjarbúa. Um leið er mörkuð stefna og tekin frá svæði fyrir ákveðna innviðaþjónustu, menningarstarfsemi og verslun í bland við nýjar miðbæjaríbúðir.
Nauðsynlegt er að ná fram heildstæðu skipulagi að nýjum miðbæ, skipulagi sem kallar fram staðaranda Mosfellsbæjar og gerir okkur stolt af miðbænum okkar.

Anna Sigríður Guðnadóttir og Ómar Ingþórsson, skipa 1. og 3. sæti á lista Samfylkingarinnar.