Hlégarður og menning í Mosó

Helga Jóhannesdóttir

Um síðustu áramót tók Mosfellsbær við rekstri Hlégarðs.
Hlégarður hefur verið lokaður undanfarin misseri vegna mikilla endurbóta innahúss og vegna takmarkana er tengdust Covid. Það er því ánægjulegt að framboð menningarviðburða hafi aukist í Hlégarði og víðar í Mosfellsbæ, jafnt og þétt undanfarin misseri.
Tillaga okkar um nýjan menningarviðburð, Menning í mars, var samþykkt og fór dagskrá tengd þeim viðburðum fram í mars síðastliðnum. Frumraunin tókst vel og gaman var að sjá hversu margir tóku þátt. Menning í mars er komin til að vera.
Nú styttist í 17. júní og þar á eftir bæjarhátíðina Í túninu heima en auk þessara viðburða er mikilvægt að vera einnig með smærri viðburði því áhugi Mosfellinga er svo sannarlega til staðar og tilefnin eru næg.
Fulltrúar D-listans vilja styðja við listsköpun og auka framboð menningar- og listviðburða í Mosfellsbæ og fagna því að ráðinn hafi verið viðburðastjóri Hlégarðs. Það er jákvætt og mun sú staða eflaust efla og auka framboð og fjölbreytni menningar- og listviðburða.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Nauðsynlegt er að halda áfram að hlúa að endurnýjun Hlégarðs og eru tækjakaup, hljóðkerfi, lýsing o.fl. hlutir sem þarf að klára sem fyrst svo húsið nýtist sem best og sem flestum.
Áform eru uppi hjá nýjum meirihluta að Mosfellsbær sjái um allan veitingarekstur og áfengissölu í Hlégarði í stað þess að fela rekstrar­aðila/viðburðastjóra þann rekstur eins og annan rekstur í húsinu. Með þeim fyrir­ætlunum má segja að bærinn sé kominn í samkeppni um veitinga- og áfengissölu. Það er mat fulltrúa D-listans í bæjarstjórn að lýðheilsubærinn Mosfellsbær eigi ekki sjálfur að standa í sölu á áfengi á viðburðum í Hlégarði.
Margt er fram undan í menningu og listum í Mosfellsbæ og mun Hlégarður gegna lykilhlutverki í mörgum af þeim viðburðum.
Við munum áfram styðja við endurnýjun og þróun Menningarhússins Hlégarðs á þessu kjörtímabili, Mosfellingum öllum til heilla.

Helga Jóhannesdóttir og Rúnar Bragi Guðlaugsson, bæjarfulltrúar D-lista