Náttúruíþróttabærinn

Mosfellsbær er hugsanlega það bæjarfélag á Íslandi sem er best fallið til þess að verða paradís þeirra fjölmörgu sem stunda náttúruíþróttir af einhverju tagi. Ég sé fyrir mér fjallahjólastíga í fellunum okkar fjölmörgu, miskrefjandi stíga þannig að allir geti fengið áskoranir við hæfi, reynsluboltar sem byrjendur. Stígarnir myndu tengjast þannig að hægt væri að fara í lengri ferðir. Þeir myndu líka tengjast yfir í Esjuna, sem má segja að sé nokkurs konar móðir fellanna okkar og þótt Esjan tilheyri strangt til tekið ekki Mosfellsbæ, er hún hluti af okkur. Við sjáum hana alla daga og heimsækjum hana oft. Mosfellingarnir Magne og Ásta hafa sýnt fram á í Reykjadal við Hveragerði hvernig er hægt að byggja upp fjallahjólastíga á umhverfisvænan hátt með því að nýta kindastíga, slóða eftir traktora og aðrar leiðir sem myndast hafa í gegnum árin. Stígarnir falla vel inn í umhverfið og koma í veg fyrir að fólk hjóli út um allar trissur. Fellin eru að sjálfsögðu líka frábær í gönguferðir og utanvegarhlaup.

Við höfum líka vötn og sjóinn og þar liggja mörg tækifæri. Vatnasport fer vaxandi víða um heim. Sund og sjóböð hafa aldrei verið vinsælli og sífellt fleiri fara reglulega á kajak eða á standbretti. Uppblásanleg standbretti eru bæði orðin ódýrari og betri en þau voru fyrir nokkrum árum. Það fer svo lítið fyrir þeim að það er meira að segja hægt að skella þeim á bakið (í þar til gerðri tösku) og hjóla með þau að næsta vatni eða sjó.

Við erum á réttri leið. Erum að halda viðburði sem hvetja fólk til þess að fara út og hreyfa sig í náttúrinni. Við erum með Tindahlaupið, Álafosshlaupið, KB þrautina, Drulluhlaupið, Fellahringinn og það nýjasta í flórunni, Hundahlaupið, sem haldið verður í fyrsta sinn í Mosfellsbæ í tengslum við Í túninu heima í ár. Njótum náttúrunnar!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 11. júlí 2024