Náttúran heillar mig alltaf
Ari Trausti Guðmundsson jarðvísindamaður og rithöfundur er landsmönnum vel kunnugur enda hefur hann starfað mikið að upplýsingamiðlun til almennings um náttúruna, margs konar vísindi og tækni, nýsköpun, jarðvísindi og umhverfismál. Hann hefur skrifað fjölda bóka um náttúru Íslands og gefið út ljóðabækur, skáldsögur og smásagnasöfn.
Árið 2016 var Ari Trausti kosinn á þing þar sem hann var m.a. formaður og fulltrúi ýmissa nefnda en hann lét af störfum árið 2021.
Ari Trausti fæddist í Reykjavík 3. desember 1948. Foreldrar hans eru Lydía Pálsdóttir Zeitner-Sternberg leirmunasmiður og Guðmundur Einarsson myndlistamaður og rithöfundur frá Miðdal.
Ari á fimm systkini, Guðmund f. 1932, Einar Steinólf f. 1932, Yngva Örn f. 1938, Auði Valdísi f. 1943, Egil Má f. 1952.
Náttúran var áhugaverð
„Ég er alinn upp í Reykjavík, efst á Skólavörðustíg og í sumarhúsinu Lynghól í Mosfellsbæ, gamla Miðdalslandinu en þar bjuggum við í rúma þrjá mánuði á hverju ári.
Æskuminningarnar eru margar og góðar, hverfið mitt í Reykjavík var fullt af búðum, vinnustöðum, krökkum og leiksvæðum og svo dvölin frá því snemma sumars og fram yfir réttir í Lynghól og á Miðdalsheiðinni, þar var náttúran áhugaverð, trjáræktin og dýralífið.“
Nútíminn hélt innreið sína
„Ég gekk í Miðbæjarskólann þar sem mér leið vel, eignaðist góða vini og man bara eftir vönduðum kennurum. Þaðan fór ég í landsprófsdeild í Iðnaðarmannahúsinu við Vonarstræti og svo í Menntaskólann í Reykjavík þar sem nám gekk þokkalega en kennararnir voru upp og ofan. Við strákarnir oftar í jakkafötum til að byrja með en gallabuxum og þurftum að þéra suma kennara þar til þeir urðu dús. Yngri kennarar höfðu fundið nútímann og hann hélt líka innreið sína meðal nemanda með bítla- og hippatímabilinu.
Á sumrin dvaldi ég í sumarbústaðnum í Lynghól, fékk að fara með pabba og eldri bræðrum á veiðar og í ferðalög með foreldrum víða um land og í utanlandsferðir til Noregs, Svíþjóðar, Þýskalands, Austurríkis og Ítalíu.
Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla hóf ég störf hjá Belgjagerðinni og starfaði þar við frágang vara. Ég starfaði einnig hjá Mjólkursamsölunni við ýmis störf og hjá Flugmálastjórn við viðhald á Reykjavíkurflugvelli.“
Samvera við ýmis góð tilefni
Eiginkona Ara Trausta er María Gíslína Baldvinsdóttir sjúkraliði frá Siglufirði. Þau eiga þrjú börn, Huldu Sóllilju f. 1973, Hugin Þór f. 1976 og Helgu Sigríði f. 1985. Barnabörnin eru fimm.
„Þegar börnin voru yngri vorum við mikið í sumarbústaðnum okkar, fórum á skíði og svo ferðuðumst við út á land, gjarnan til Siglufjarðar. Smám saman lá leið okkar einnig til útlanda. Núna snýst samvera um alls konar tilefni til að hittast, gjarnan til að borða saman og svo höfum við gætt barnabarnanna af og til sem veitir okkur hjónunum mikla ánægju.“
Hlotið margar viðurkenningar
Það er óhætt að segja að Ari Trausti hafi komið víða við á sínum ferli. Hann stundaði nám í jarðeðlisfræði við Oslóarháskóla og tók síðar viðbótarnám í jarðvísindum frá Háskóla Íslands og útskrifast þaðan 1984.
Hann vann við rannsóknarstörf, blaðamennsku, kennslu og leiðsögn og ferðaþjónustu til ársins 1987. Eftir það varð hann sjálfstætt starfandi og sinnti ýmiss konar faglegri ráðgjöf, fyrirlestrum, ferðaþjónustu, fjölbreyttum ritstörfum og dagskrárgerð fyrir sjónvarp og útvarp.
Ari Trausti hefur skrifað fjölda bóka, gefið út smásagnasöfn, ljóðabækur og skáldsögur. Hann hefur einnig skrifað margar greinar í blöð og tímarit um umhverfismál, ýmis þjóðmál, stjórnmál, ferðaþjónustu og fjallamennsku. Hann hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir störf sín m.a. Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness, Landgræðsluverðlaunin, verðlaun Rannís fyrir framlag til vísindamiðlunar og árið 2022 varð hann handhafi riddarakross Fálkaorðunnar fyrir störf á sviði vísinda og þekkingarmiðlunar.
Á ekki langt að sækja listhneigð sína
Ari Trausti hefur komið að hönnun ýmissa safna og sýninga, meðal annars Lava Centre á Hvolsvelli. Hann hefur framleitt heimildarmyndir og sjónvarpsþætti, tekið þátt í ljósmyndasýningum og haldið sýningar á eigin verkum, vatnslitamyndum og teikningum.
Ari Trausti á ekki langt að sækja listhneigð sína en faðir hans var þekktur og afkastamikill myndlistarmaður og rithöfundur, móðir hans leirmunasmiður og Guðmundur (Erró) bróðir hans er einn af þekktustu samtímalistamönnum Íslands og hefur einnig leikið veigamikil hlutverk í alþjóðlegri myndlist.
Leitaði uppi óklifin fjöll
„Ég hef stundað útivist, fjalla- og jöklaferðir í yfir fimm áratugi, bæði hér heima, í Ölpunum og í nokkrum háfjallalöndum, t.d í Asíu og Suður-Ameríku. Mörg eldgos hafa verið tilefni til útivistar og svo hef ég líka stundað ísklifur. Ég var svolítið í hálendisleiðsögn hér heima og var í litlum hópi sem leitaði uppi óklifin fjöll á Íslandinu góða til að klífa.
Ég fór líka út í það að leiðsegja íslenskum hópum erlendis, m.a. á norðurslóðum og í Ekvador, auk ferða til Suðurskautslandsins, Mongólíu og Nýja-Sjálands svo dæmi séu nefnd. Fjallganga, létt eða erfið, er eiginlega meira en holl áreynsla, líka einhvers konar jóga, ég er ekki einn um þá skoðun.“
Alltaf gaman að skoða nýjar slóðir
Mörg Evrópulönd hafa verið á dagskránni á löngum tíma og við Maja höldum upp á borgarferðir og höfum farið í fáeinar slíkar um Frakkland að undanförnu. Það er alltaf gaman að skoða sig um á nýjum slóðum og í alls konar samfélögum.“
Ég spyr Ara hvað standi upp úr frá öllum þessum ferðalögum um heiminn? „Margar minningar hafa safnast til manns, t.d að klífa ófarinn tind eins og Snæfell við Kálfafellsdal í kulda og trekki. Ganga um ósnortnar slóðir á Grænlandi með sauðnautum.
Standa á fyrsta tindinum yfir 6.000 metrana í Bólivíu og horfa á langan skugga hans styttast í takt við sólaruppkomuna. Þurfa að taka tilhlaup til að stökkva af hraunfleka yfir glóandi sprungu á fast land í Heklugosi og sitja með Maju á Café Carette í Mýrinni í París. Eftirminnilegt já, en það eftirminnilegasta er ef til vill ókomið í sjóðinn,“ segir Ari og brosir.
Fara í göngutúra um bæinn
Árið 2016 var Ari Trausti kosinn á þing fyrir Vinstri græna í Suðurkjördæmi. Meðal annarra starfa á Alþingi var hann fulltrúi VG í utanríkismálanefnd, formaður Þingvallanefndar, formaður þingmannanefndar um norðurslóðir og varaformaður umhverfis og samgöngunefndar en hann lét af störfum 2021.
Ég spyr Ara Trausta hvað hann sé að gera í dag? „Ég sinni ritstörfum, fyrirlestrum, nefndarstörfum, leiðsögn og fjölmiðlun en nýti frístundir til annars, t.d. gönguferða með Maju upp og niður hér í sveitinni og í bænum,“ segir Ari að lokum er við kveðjumst.