Náttúran eflir og læknar
Sagt hefur verið að útivera og ferskt loft sé eitt besta meðalið sem hægt er að fá við nánast öllu.
Nú hafa sænskir vísindamenn sýnt fram á með nýlegum rannsóknum að svo sé og jafnframt að náttúran virki betur, t.d. gegn kulnun, en lyf.
Náttúran betri en lyf
„Við sjáum það mjög skýrt og endurtekið við vinnu okkar í endurhæfingarstöðinni í Alnarp að náttúran virkar mun betur en lyf og aðrar meðferðir, til að mynda gegn kulnun“ segir Erik Skärbäck, prófessor í borgarskipulagi og landslagsarkitekt við Alnarp landbúnaðarháskólann í Svíþjóð.
Á meðal þess sem var skoðað sérstaklega voru göngur, bæði í skóglendi og náttúrunni almennt, og var niðurstaðan sú að slíkar göngur væru betri fyrir heilsuna en hinir hefðbundnu lyfjakúrar. Það er virkilega ánægjulegt að fá það staðfest að sú ró og friður sem við upplifum í náttúrunni geti haft svo jákvæð áhrif á líðan okkar og heilsu.
Heilinn slakar á
Heili okkar nær að slaka á í rólegu umhverfi, ólíkt því sem gerist í áreiti borga þar sem t.d. bílaumferð er mikil og ýmis hljóð bergmála í umhverfi okkar. Náttúran, eins og t.d. fiðrildi, flugnasuð og lauf, tekur ekki eins mikla orku frá okkur og því getum getum við leyft huganum að reika segir Erik Skärbäck.
Það er til dæmis ástæðan fyrir því að þegar við förum í skógargöngu eða göngu í náttúrunni þá höfum við meira rými til að hugsa og komast til botns í ýmsum úrlausnarefnum þar sem það er ekki jafnmikið áreiti í náttúrunni.
Njótum útivistarsvæðanna
Það er því ærið tilefni fyrir okkur Mosfellinga að gleðjast enda örstutt í Hamrahlíðarskóginn, Reykjalundarskóginn, öll fellin okkar og dásamlegu útivistarsvæðin hér í túnjaðrinum. Allt saman tilvalin svæði til að njóta náttúrunnar og efla eigin vellíðan.
Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem vettlingi geta valdið til að nýta sér þessar náttúruperlur í heilsubænum Mosfellsbæ. Munum líka að vera þakklát því það er svo sannarlega ekki sjálfgefið að vera í þessu návígi við náttúruna – náttúru sem eflir og læknar.
Ólöf Kristín Sívertsen
Lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ