Myndir skipta miklu máli
Þær Helga Dögg Reynisdóttir og Nanna Guðrún Bjarnadóttir hafa stofnað fyrirtækið Fókal sem sérhæfir sig í viðburða- og fyrirtækjaljósmyndun. Þær starfa einnig sem sjálfstætt starfandi ljósmyndarar og eru með ljósmyndastúdíó í Kjarnanum.
„Við erum fjórir ljósmyndarar sem höfum aðstöðu hér í Kjarnanum. Hér erum við með fullbúið ljósmyndastúdíó og tökum að okkur alla vega verkefni.
Auk okkar Helgu eru hér Ása Magnea Vigfúsdóttir og Kolbrún María Ingadóttir. Við störfum allar sjálfstætt en svo erum við Helga saman með Fókal,“ segir Nanna.
Gaman að vinna saman
„Leiðir okkar Nönnu hafa legið saman í langan tíma, við vorum saman í ljósmyndanáminu og höfum báðar lokið námi í grafískri miðlun. Við höfum mikið myndað fjölskyldur og börn undanfarin ár og okkur langaði að gera eitthvað saman. Við sáum tækifæri í þessari hugmynd, því fáir að gefa sig út fyrir þessa þjónustu við fyrirtæki.
Við höfum fengið ótrúlega góðar viðtökur og fjölbreytt verkefni. Við myndum ráðstefnur, starfsdaga hjá fyrirtækjum, árshátíðir, ýmsa fundi, vöruframleiðslu og hefðbundnar starfsmannamyndir,“ segir Helga.
Myndir eru mikilvægar fyrir fyrirtæki
„Við leggjum áherslu á vönduð og fagleg vinnubrögð og skilum af okkur verkefnum á því formi sem viðskiptavinurinn óskar.
Á heimasíðunni okkar eru allar upplýsingar um fyrirtækið og sýnishorn af þeim verkefnum sem við höfum verið að fást við. Okkur finnst gott að vinna saman og fá faglegan stuðning hvor af annarri,“ segir Nanna.
„Það eru okkar sýn að góðar myndir skipti miklu máli í kynningar- og markaðsefni fyrirtækja. Það vantar öll fyrirtæki góðan ljósmyndara. Við bíðum sérstaklega spenntar eftir að þjónusta fyrirtæki í Mosfellsbæ,“ segir Helga að lokum.