#mosoheilsa

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Nú er vorið að nálgast og segja þeir allra jákvæðustu að það hafi nú verið meira og minna vor í allan vetur! Menningarvorið er allavega gengið í garð og var okkur boðið upp á mannbætandi og heilsueflandi samverustundir á bókasafninu síðustu tvo þriðjudaga.
Krókusarnir eru komnir upp í görðum á víð og dreif og lóan er meira að segja komin – yndislegt. Til að toppa þetta þá er ýmislegt spennandi fram undan í heilsubænum Mosfellsbæ.

#mosoheilsa
Til að vekja unglingana okkar til ábyrgðar og vitundar um mikilvægi eigin heilsu þá munum við blása til samfélagsmiðlaleiks meðal nemenda í 8.-10. bekk sem hefst í dag, fimmtudaginn 6. apríl, og stendur til 30. apríl nk.
Við höfum fengið nemendafélögin í Lágafells- og Varmárskóla til liðs við okkur og er hugmyndin sú að nemendur taki myndir af hverju því sem þeir tengja við heilsu og merki myndirnar #mosoheilsa.
Allir geta leitað í hugmyndabanka sem verður inni á www.heilsuvin.is til að finna tillögur að myndefni – hvernig myndar maður t.d. kyrrð og gleði? Glæsileg verðlaun verða í boði fyrir bestu/skemmtilegustu myndirnar eins og sjá má í auglýsingu á öðrum stað í blaðinu.

Okkar Mosó
Við hvetjum ykkur eindregið til að taka þátt í kosningum um verkefni í Okkar Mosó og hafa þar með bein áhrif á umhverfið og samfélagið hér í bænum.
Kosning um tillögur stendur núna yfir á heimasíðu Mosfellsbæjar www.mos.is og eru þær hver annarri betri. Það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu heilsuþenkjandi íbúar Mosfellsbæjar eru og ég verð að játa að ég sjálf á í stökustu vandræðum með að kjósa á milli og langar að velja allar tillögurnar!

Lýðheilsuverðlaun Mosfellsbæjar
Við höfum, fyrst allra sveitarfélaga, ákveðið að efna til samkeppni um Lýðheilsuverðlaun Mosfellsbæjar og mun verðlaunaafhending fara fram á Heilsudeginum okkar núna í vor.
Verið er að setja saman dómnefnd og þau viðmið sem farið verður eftir og mun Mosfellingum gefast kostur á að tilnefna verkefni og/eða einstaklinga sem koma að lýðheilsu og heilsueflingu á einn eða annan hátt.
Nánari upplýsingar um fyrirkomulag og tilhögun verða birtar í næsta Mosfellingi en farið endilega að hugsa hverjir ætti skilið að hljóta Lýðheilsuverðlaun Mosfellsbæjar 2017.

Það eru sem sagt spennandi tímar fram undan­ og nú er það bara áfram veginn!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ