Áfallasjóður Rauða krossins

Katrín Sigurðardóttir

Katrín Sigurðardóttir

Áfallasjóður Rauða krossins er samstarfsverkefni deilda á Stór-Reykjavíkursvæðinu, það er Mosfellsbæjar-, Kópavogs-, Reykjavíkur-, Hafnarfjarðar- og Garðabæjardeildar.
Áfallasjóðurinn var stofnaður í árslok 2015. Stofnun hans kom til þar sem ljóst var að margir sem lenda í tímabundnum vanda vegna ófyrirsjáanlegra áfalla eiga í engin hús að venda ef þeir þurfa stuðning til að yfirstíga vanda sem hlýst af áfallinu. Tilgangur sjóðsins er að aðstoða fólk sem verður fyrir skyndilegu fjárhagslegu áfalli, oft vegna sjúkdóma eða slysa, og fær enga eða mjög litla aðstoð annars staðar. Ætlunin er að brúa bil og með því hjálpa fólki að ná sér aftur á strik eftir ófyrirséð fjárhagslegt áfall. Markmiðið er að forða fóki frá að lenda í aðstæðum sem það nær ekki að vinna sig úr án stuðnings.
Þeir sem sótt geta um stuðning eru einstaklingar og fjölskyldur með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu.
Á síðasta ári var veittur stuðningur til 44 einstaklinga og fjölskyldna.
Viðbrögð þeirra sem fengu aðstoð hafa verið ákaflega hjartnæm eins og sjá má af dæmunum hér fyrir neðan og sýna þau okkur að stuðningur getur gert gæfumun í slíkum aðstæðum.
Hér eru tvö dæmi sem tekin eru úr þakkarbréfum frá þeim sem fengið hafa stuðning:
„Það munar rosalega að fá svona aðstoð… það léttir rosalega á manni andlega, það verður léttara yfir manni, og maður fær smá von í hjarta um að kannski muni þetta nást á endanum, þetta gefur manni von.“
„Ég get aldrei fullþakkað Rauða krossinum fyrir þá aðstoð sem mér var veitt í september 2016. Hún gerði það að verkum að ég gat flutt í húsnæði sem er öruggt og þar sem ég þarf ekki að flytja aftur nema ég þurfi og vilji, er loksins komin í öruggt skjól.“
Það sem af er þessu ári hefur umsóknum um stuðning fjölgað til muna og eru orðnar svipað margar og allt árið 2016. Því er ljóst að þörfin er mikil og fer vaxandi.
Til þess að Rauði krossinn geti haldið áfram að veita þennan mikilvæga stuðning þurfum við nú á aðstoð ykkar að halda. Það er von okkar að velviljaðir einstaklingar og fyrirtæki veiti fjárhagslegan stuðning svo að við getum haldið áfram því mikilvæga starfi sem stuðningur úr áfallasjóðnum er.
Hægt er að leggja inn á bankareikning 0315-22-000499. Kennitala 551082-0329 og merkja greiðsluna: Áfallasjóður

Katrín Sigurðardóttir, stjórnarmaður Rauða krossins í Mosfellsbæ og í stjórn áfallasjóðs