Mosfellskirkju lokað vegna rakaskemmda og myglu

Sóknarnefnd Lágafellssóknar hefur tekið ákvörðun um að loka Mosfellskirkju tímabundið.
Ástæðan er sú að rakaskemmdir og mygla fannst þegar verkfræðistofan Efla var fengin til að kanna ástand kirkjunnar.
„Nefndin bað um úttekt á ástandi kirkjunnar, kirkjan er komin til ára sinna og ljóst er að hún þarfnast mikils viðhalds,“ segir Ólína Kristín Margeirsdóttir formaður sóknarnefndar Lágafellssóknar.
„Niðurstöður Eflu voru meðal annars að það eru víðtækar rakasemmdir og að það þurfi að fara í gagngerar endurbætur á byggingunni. Við tókum þá ákvörðun að loka Mosfellskirkju tímabundið á meðan verið er að taka ákvörðun um hvað skuli gera. Það er ljóst að þessar framkvæmdir eru kostnaðarsamar og það þarf að vera til peningur fyrir því sem þarf að gera. Báðar kirkjurnar okkar eru komnar til ára sinna og því mikill viðhaldskostnaður til staðar.
Nýverið var skipt um þak á Lágafellskirkju og ljóst er að fljótlega þarf að skipta þar um glugga og fleira,“ segir Ólína að lokum og nefnir að jafnvel þurfi að stofna til söfnunar meðal almennings fyrir framkvæmdum Mosfellskirkju.