„Allir þurfa eina skóla­hljómsveit í sitt líf“

Hulda Björk Finnsdóttir

Hér er vitnað í orð vinkonu minnar, en börnin hennar spiluðu með skólahljómsveit í öðru sveitarfélagi til margra ára.
Ég tek heilshugar undir hennar orð þar sem Skólahljómsveit Mosfellsbæjar eða Skómos, hefur verið einn af ánægjulegu föstum punktum okkar fjölskyldu síðustu 14 árin hér í bæjarfélaginu.
Þegar hljómsveitarmeðlimir voru beðnir um að lýsa Skómos var svarið eftirfarandi. Í Skómos lærist að þjálfa tóneyrað, öðlast nýja færni og þar með nýtt tungumál. Fólk fær æfingu í að gera margt í einu eins og að horfa á stjórnandann, að lesa úr nótum og hlusta á aðra í kringum sig á sama tíma. Bjarga sér út úr feilnótum, mæta reglulega á æfingar og þar með fá þjálfun í úthaldi, þolinmæði og einbeitingu. Mikilvægt er að tilheyra hópi sem skapar og er með færni í að búa til eitthvað saman. Síðast en ekki síst þá eignast fólk vini í Skómos. Einnig stendur hátt upp úr þátttaka í fjölda landsmóta víðsvegar um landið, næturgistingar í skólanum, tónleikar í Hörpu, spilamennska í Mosó á sumardaginn fyrsta og á 17. júní, á útskriftum framhaldsskóla og svo mætti lengi telja. Ekki má gleyma tónleikaferðum erlendis, en hljómsveitin er einmitt að leggja land undir fót nú í júnímánuði til Danmerkur.
Áhugi, metnaður og óeigingjarnt starf stjórnenda og kennara Skómos skín ávallt í gegnum starfið ásamt hlýju viðmóti og mikilli gleði. Við erum þakklát fyrir samfylgdina síðustu árin og hvetjum öll börn og ungmenni í Mosfellsbæ sem hafa áhuga á tónlist og að tilheyra skapandi og skemmtilegum hópi, að taka þátt í Skómos um ókomna framtíð.

Skómos – til hamingju með 60 ára afmælið.

Hulda Björk Finnsdóttir