Mosfellsbær – uppbygging á miðbæjarsvæði

Ásgeir Sveinsson

Mosfellsbær er ört stækkandi sveitarfélag enda eftirsóknarverður búsetukostur fyrir margra hluta sakir.
Byggðakjarnar sveitarfélagsins eru skipulagðir með það að leiðarljósi að auðvelda aðgengi íbúanna að hvers kyns þjónustu og áhersla lögð á fjölbreytt búsetuform. Uppbyggingin mun halda áfram jafnt og þétt á komandi árum, meðal annars í miðbæ Mosfellsbæjar sem er í uppbyggingu og er að taka á sig skýrari mynd.
Til þess að skapa gott fjölbreytt miðbæjarlíf þarf að vera til staðar öflug og fjölbreytt verslun, þjónustufyrirtæki auk íbúðarhúsnæðis og fallegt umhverfi sem laðar að sér íbúa og gesti bæjarins.

Almenningsgarður í miðbæ Mosfellsbæjar
Í miðbæ Mosfellsbæjar er samkvæmt gildandi deiliskipulagi gert ráð fyrir 5.000 fermetra svæði í Bjarkarholti í miðbæ Mosfellsbæjar fyrir almenningsgarð sem hugsaður er sem grænt svæði til útivistar og upplifunar fyrir íbúa Mosfellsbæjar og gesti þeirra. Ásýnd svæðisins er ætlað að verða aðlaðandi og spennandi kostur til að njóta samveru í fallegu umhverfi. Samþykkt var nýlega í bæjarráði að efna til opinnar hugmyndasamkeppni í janúar á næsta ári um miðbæjargarðinn. Samkeppnisferlið mun taka nokkrar vikur og er áætlað að kynna niðurstöður úr samkeppninni á sumardaginn fyrsta eða 21. apríl 2022.

Bryndís Brynjarsdóttir

Í fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu fyrir garðinn er gert ráð fyrir byggingu og útisvæði fyrir veitingasölu/kaffihús. Þessi garður verður frábær viðbót við miðbæ Mosfellsbæjar og tilvalinn vettvangur fyrir íbúa og gesti þeirra til að njóta útiveru og hreyfingar í fallegu og lifandi miðbæjarumhverfi. Hugmyndasamkeppninni er ætlað að kalla fram skapandi og skemmtilegar hugmyndir um útfærslur garðsins.

Áframhaldandi uppbygging við Bjarkarholt
Uppbygging húsnæðis í miðbænum við Bjarkarholt heldur áfram og ber þar hæst að nefna fyrirhugaða byggingu þjónustuíbúða fyrir eldri borgara sem tengjast munu núverandi byggingum og þeirri starfsemi sem fyrir er á Hlaðhömrum. Auk þjónustuíbúðanna verður einnig byggt rými fyrir félagsþjónustu eldri borgara í Mosfellsbæ. Eldri borgurum fjölgar og þessi viðbót er því kærkomin og mun hún auka þjónustuna til muna fyrir þennan aldurshóp í Mosfellsbæ.

Uppbygging á fleiri svæðum á miðsvæði Mosfellsbæjar
Á miðbæjarsvæði Mosfellsbæjar er einnig fyrirhuguð áframhaldandi uppbygging í Sunnukrika. Gert er ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæðum og að skrifstofur eða íbúðir verði á efri hæðum eins og þekkist í Sunnukrika 3 sem búið er að byggja. Einnig mun Mosfellsbær úthluta lóðum á næstu misserum í landi Hamraborgar fyrir neðan Olís þjónustustöðina. Þar er verið að þétta byggð og á því svæði verða byggð tvö fjölbýlishús auk einbýlis- og raðhúsa.
Að lokum ber að nefna að samningar um stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra milli ríkis og Mosfellsbæjar eru í vinnslu og kveða þeir á um að byggð verði 44 ný rými við hjúkrunarheimilið og leysa þau úr brýnni þörf fyrir fleiri slík rými. Það er ljóst að uppbygging á miðsvæði Mosfellsbæjar mun halda áfram af krafti næstu misseri sem tryggir fallegan, lifandi og skemmtilegan miðbæ með fjölbreyttri þjónustu, og fallegu umhverfi með miðbæjargarðinn sem hjarta svæðisins.

Ásgeir Sveinsson, formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar Mosfellsbæjar.
Bryndís Brynjarsdóttir, varaformaður skipulagsnefndar Mosfellsbæjar.