Mosfellsbær og heimsfaraldurinn – endurreisnin er hafin

Hjá Mosfellsbæ starfa um 800 manns og rúmlega 12.000 íbúar njóta daglega þjónustu frá meðal annars skólum, íþróttamiðstöðvum og þjónustustöð sem sér um að halda umhverfi bæjarins aðlaðandi og öruggu.
Áhrif heimsfaraldurs COVID-19 snerta okkur öll og nú er langþráð endurreisn hafin. Mosfellingur tók því hús á Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra til að fara yfir stöðuna eins og hún horfir við núna.

Neyðarstjórn og viðbragðsáætlun
Að sögn Haraldar unnu starfsmenn bæjarins í aðdraganda faraldursins útfrá viðbragðsáætlun sem miðar að því að kortleggja með hvaða hætti stjórnvöld geta tryggt órofinn rekstur bæjarins í aðstæðum eins og COVID-19 faraldrinum.
Neyðarstjórn bæjarins var virkjuð og í viðbragðsáætluninni er sérstök áhersla lögð á að starfsemi sem tengist viðkvæmum hópum eins og öldruðum, fólki með fötlun og þjónusta við börn, haldist órofin.
Í kjölfar samkomubanns og takmarkana á skólahaldi endurskipulögðu stjórnendur og starfsfólk leik- og grunnskóla undir forystu fræðslu- og frístundasviðs allt leik- og grunnskólastarf í bænum á einni helgi. Starfsmenn og íbúar unnu sem einn maður að því að láta starfsemina ganga upp og nutu við það stuðnings bæjarstjórnar í heild sinni.

Frestun fasteignagjalda
Bæjarstjórn hefur samþykkt sínar fyrstu aðgerðir í þágu íbúa sem felast meðal annars í frestun fasteignagjalda og lækkun þjónustugjalda. Þá felst annar hluti endurreisnarinnar í því að Mosfellsbær hefur ákveðið að efna til sérstaks átaks um sumarstörf fyrir ungmenni og námsmenn enda mikið atvinnuleysi nú sem stendur.
Á næstunni munu svo frekari aðgerðir líta dagsins ljós en gera má ráð fyrir því að tekjur sveitarfélagsins dragist verulega saman á sama tíma og útgjöld munu aukast og við því þarf að bregðast.

Þrautseigja og samstaða
„Það sem mér er efst í huga eftir reynslu síðustu vikna er þrautseigja starfsmanna og samstaða íbúa um að láta starfsemi á vegum bæjarins ganga upp í þeim takmörkunum sem leiddu af samkomubanni og höfðu þar af leiðandi áhrif á starfsemi bæjarins,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Þá er gott að líta til þeirrar forystu, leiðsagnar og fumleysis sem einkennt hefur störf Almannavarna og sóttvarnalæknis. Við fengum í sameiningu flókið og erfitt verkefni sem ekki sér alveg fyrir endann á. Sá félagsauður sem við Mosfellingar búum yfir er að mínu mati dæmafár og gott að við getum sem samfélag nú sem fyrr sótt styrk í samstöðu, samvinnu, skilning og sanngirni á þeim sérstöku tímum sem við höfum upplifað.
Þetta er hægt af því að við njótum enn góðs af sterkum tengingum á milli fólks í okkar samfélagi. Þá hefur bæjarstjórn Mosfellsbæjar verið samstíga í sínum viðbrögðum sem vinnur með okkur öllum. Nú erum við komin að upphafi endurreisnarinnar sem ég tel að muni áfram kalla á sömu eiginleika og nýttust okkur svo vel í kófinu miðju.
Að þessu sögðu langar mig að hvetja alla íbúa til að gæta að þeim leiðbeiningum sem í gildi eru á hverjum tíma og njóta þess að ferðast inn í sumarið innanlands og ítreka þakkir mínar og annarra í bæjarstjórn til íbúa og starfsmanna.“