Mosfellsbær fyrir barnafjölskyldur
Í febrúar birtust niðurstöður þjónustukönnunar Mosfellsbæjar en þær sýndu ánægju notenda þjónustu sveitarfélagsins,en Mosfellsbær var yfir landsmeðaltali í 11 flokkum af 13.
Er það sérstakt fagnaðarefni að 97% foreldra leikskólabarna eru ánægðir með þjónustu leikskóla bæjarins enda hefur bæjarstjórn lagt mikla áherslu á eflingu skólastigsins. Plássum á ungbarnadeildum og opnun sérstaks ungbarnaleikskóla hefur stytt biðlista töluvert og hafa leikskólagjöld lækkað um 25% á ári frá síðustu sveitastjórnarkosningum.
Þessi aukna þjónusta við barnafjölskyldur er mikilvæg og kemur til móts við aðgerðir stjórnvalda sem hafa nú lengt fæðingarorlof í 12 mánuði. Öflugir leikskólar og metnaðarfull uppbygging í sveitarfélaginu hefur gert Mosfellsbæ að eftirsóttum stað fyrir ungt fólk að skjóta niður rótum.
Barnvænt sveitarfélag
Nýlega skrifaði Mosfellsbær undir samstarfssamning við UNICEF og félagsmálaráðuneytið um innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á öllum stigum stjórnsýslu sveitarfélagsins. Mun innleiðing sáttmálans auka gæði þjónustu við börn og barnafjölskyldur og vernda réttindi barna. Síðastliðin ár hefur bæjarbúum fjölgað hratt og mikill áhugi er meðal ungs fólks á að ala upp börn í Mosfellsbæ.
Samspil góðrar þjónustu, bæjarbrags og nálægð okkar við náttúru- og útivistarsvæði gerir Mosfellsbæ að góðum stað til þess að búa á. Tilkoma hlutdeildarlána hefur auðveldað ungu fólki og tekjulágum að fjárfesta í íbúðum sem nú eru í uppbyggingu í nýjum miðbæ og virðist fjölgun Mosfellinga ekki vera á undanhaldi.
Hvernig getum við gert betur?
Þrátt fyrir að ánægja sé meðal bæjarbúa er kemur að þjónustu og starfsemi sveitarfélagsins er mikilvægt að gera betur. Þegar kemur að þjónustu við ungt fólk, og þá sérstaklega barnafjölskyldur er mikilvægt að bjóða upp á öflugar almenningssamgöngur. Nú þegar hefur Mosfellsbær byggt upp öflugt hjólastígakerfi sem tengir okkur við Reykjavík.
Á næstu árum munu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við stjórnvöld hefja uppbyggingu Borgarlínu. Mikilvægt er að tryggja að þau sveitarfélög sem liggja við jaðar höfuðborgarsvæðisins geti áfram treyst á að leiðakerfi Strætó bs. og tenging við nýtt kerfi geri almenningssamgöngur að raunhæfum kost fyrir Mosfellinga. Öflugar almenningssamgöngur geta bætt lífsgæði okkar til muna, sérstaklega ungs fjölskyldufólks sem sér Mosfellsbæ sem framsækið og barnvænt sveitarfélag og vill setjast hér að.
Una Hildardóttir
Höfundur býður sig fram í 1.-2. sæti í forvali VG í Suðvesturkjördæmi