Lífið tók óvænta stefnu
Ísfold Kristjánsdóttir greindist með brjóstakrabbamein í mars 2015.
Ísfold leitaði til læknis eftir að hún fann fyrir hnúð í vinstra brjósti. Eftir skoðun var henni tjáð að líklega væri um mjólkurkirtil að ræða. Í mars 2015 greindist hún með brjóstakrabbamein og hefur síðan þá farið í þrjár aðgerðir og er á leið í þá fjórðu.
Í einlægu viðtali við Ruth Örnólfsdóttur ræðir hún um æskuna árin í Danmörku, veikindin og líðan sína í dag.
Ísfold Kristjánsdóttir er fædd 18. febrúar 1986. Foreldrar hennar eru þau Ísfold Aðalsteinsdóttir fyrrverandi starfsmaður Reykjalundar og Kristján Hauksson eigandi Glermerkingar en hann lést árið 2000.
Ísfold, eða Folda eins og hún er ávallt kölluð, á þrjár systur, þær Fanneyju fædda 1968, Kristínu fædda 1968 og Hólmfríði fædda 1974.
Ólst upp á Bassastöðum við Hafravatn
„Ég er alin upp í Mosfellsbænum og ólst upp á Bassastöðum sem eru uppi við Hafravatn. Á hverjum degi tók ég skólabílinn niður að Varmárskóla og var keyrð aftur heim upp að dyrum. Ég man að krakkarnir öfunduðu mig mikið að þessu,“ segir Folda og brosir.
Ein af mínum uppáhaldsæskuminningum eru útilegurnar á sumrin með fjölskyldunni. Við tjölduðum og fundum okkur svo eitthvað skemmtilegt að gera. Veiddum, tíndum egg, fundum orma, fleyttum kerlingar og svo mætti lengi telja.“
Trúi því að við munum hittast aftur
„Veiðiferðunum okkar pabba gleymi ég aldrei. Við skutluðum mömmu í vinnuna og skelltum okkur svo upp á Hafravatn með veiðistangirnar. Þar gátum við setið klukkutímunum saman. Ég man hvað það var alltaf gaman að spjalla við pabba, hann var svo mikill spekingur og hafði sterkar skoðanir á hlutunum.
Pabbi varð bráðkvaddur á heimili okkar í júní árið 2000. Þetta var mjög erfiður tími því ég var mikil pabbastelpa. Það tók mig tvö ár að komast yfir mesta söknuðinn en nú lifi ég með honum. Ég trúi því að við munum hittast aftur seinna.
Erfiðast þykir mér að Þórður og synir okkar fái ekki að kynnast þessum mikla meistara sem hann var.“
Flutti til Danmerkur
„Eftir útskrift úr gaggó fór ég í Borgarholtsskóla en kláraði ekki námið því ég flutti til Danmerkur með fyrrverandi kærasta mínum. Við bjuggum hjá foreldrum hans í Horsens. Árið 2005 hættum við saman og þá ákvað ég að flytja aftur heim til Íslands. Ég fór að vinna á frístundaheimili í Grafarvoginum sem stuðningsfulltrúi og þar starfaði ég í 6 ár.“
Saumaði brúðarkjólinn sjálf
„Ári eftir að ég kom heim kynntist ég manninum mínum, Þórði Birgissyni. Við kynntumst í tvítugsafmælinu mínu en ég og Sandra Rós vinkona mín héldum sameiginlega upp á afmælin okkar.
Við Þórður eignuðumst okkar fyrsta barn, hann Véstein Loga, árið 2009. Þá bjuggum við uppi á Bassastöðum hjá mömmu en árið 2011 fluttum við til Kaupmannahafnar þar sem Þórður fór í nám í tölvunarfræði.
Miðjuprinsinn, Þrándur Ingi, fæddist svo 2012 en þá var ég búin að vera í dönskukúrsum og líkaði vel. Tíminn í fæðingarorlofinu var æðislegur, við bjuggum á Solbakken sem er staðsett við Vesterbro og kynntumst þar mörgu yndislegu fólki sem eru góðir vinir okkar í dag.
Við giftum okkur í júlí 2014 í Ráðhúsinu í Kaupmannahöfn í návist okkar nánustu en þá var ég kasólétt að yngsta prinsinum okkar, Ævari Frey. Ég saumaði brúðarkjólinn sjálf með aðstoð yndislegrar vinkonu minnar, Karenar Óskar, og bjó líka til brúðarvöndinn.“
Hneig niður á gólfið af gleði
„Í mars 2015 tók líf mitt óvænta stefnu því ég greindist með brjóstakrabbamein. Ég var búin að vera með hnúð í brjóstinu í að minnsta kosti ár. Fór til heimilislæknis sem sagði við mig að þetta væri mjög líklega mjólkurkirtill. Hann bað mig að fylgjast vel með hnúðnum og koma aftur ef mér fyndist hann stækka.
Manninum mínum leist ekki á blikuna og bað mig um að fara og láta skoða þetta betur og biðja um að fá að fara í myndatöku. Ég gerði það og þá kom í ljós að þetta var illkynja æxli. Ég fékk algjört sjokk og líf mitt hrundi.
Ég var strax send í myndatöku á lungum og hjarta til að sjá hvort meinið væri búið að dreifa sér. Tveimur dögum seinna fór ég í aðgerð þar sem eitlar voru teknir undir handakrika en áður en ég fór heim fékk ég að vita að engin meinvörp væru komin í lungun og hjartað. Það var mikill léttir, ég hneig niður í gólfið af gleði.
Við fórum heim og skáluðum fyrir góðum fréttum. Mamma var þá komin út til okkar en hún hefur alla tíð verið til staðar fyrir okkur þessi elska.“
Erfiðast var að missa augnhárin
„Innan við viku frá því ég greindist byrjaði strembin lyfjagjöf. Ég fór í átta skipti á þriggja vikna fresti. Dagana fyrir lyfjagjafir þurfti Þórður að sprauta í mig efni til að fyrirbyggja bráðaofnæmi við lyfjagjöfinni en eftir gjafirnar lá ég oftast veik í þrjá daga.
Maðurinn minn sá alveg um strákana okkar og heimilið á meðan ég svaf út í eitt. Hann kvartaði aldrei þessi elska enda er hann þvílíkur eðalklettur.
Ég missti hárið eftir fyrstu gjöfina, Oddný vinkona mín kom út til mín og var hjá mér á þessum tíma. Ég missti ekki einungis hárið heldur öll hár á líkamanum. Verst fannst mér að missa augnhárin en þau eru að koma til baka núna.“
Komu með óvænta gjöf í farteskinu
„Á meðan á lyfjagjöfinni stóð komu yndislegir vinir okkar, Gunnar Ingi og Katrín, í heimsókn og voru með óvænta gjöf í farteskinu.
Fámennur hópur náinna vina var búin að opna styrktarsíðu á Facebook fyrir okkur, við áttum bara ekki til orð.
Á stuttum tíma fór hópurinn úr því að vera 20 manns í 350 þar sem svo margir vildu fá að bætast í hópinn, bæði ættingjar og vinir.
Við verðum öllu þessu fólki ævinlega þakklát, ég veit að ég hefði ekki náð svona góðum og snöggum bata ef þessi síða hefði ekki verið til staðar. Það var svo gott að finna hvað allir voru tilbúnir til að hjálpa, finna sterku straumana, hlýju kveðjurnar og peppin sem við fengum frá fólki úr öllum áttum.“
Margir komu frá Íslandi til að fagna
„Eftir lyfjagjöfina sem stóð yfir í að verða sex mánuði fór ég í brjóstnám. Bæði brjóstin voru tekin þó að krabbameinið hefði aðeins fundist í vinstra brjóstinu og eitlum þar í kring. Hitt brjóstið var tekið til að fyrirbyggja að það gæti komið aftur mein. Ég var í smá tíma að ná mér eftir aðgerðina og nú er loksins hægt að segja að ég sé laus við krabbameinið.
Áður en ég byrjaði í geislameðferðinni fórum við hjónin til Berlínar með góðum vinum. Yndislega tengdamamma mín kom út til okkar til Köben til að passa strákana okkar á meðan.
Við tóku svo 25 skipti í geislunum, sú meðferð gekk vel og ég fékk nánast engar aukaverkanir. Síðustu vikuna í nóvember ákvað ég að halda „Cancer free party“ og komu margir frá Íslandi til að fagna með mér.
Vinkonuhópurinn gaf mér ofboðslega fallegt hálsmen sem gullsmiðurinn Bjarni Bjarkason hannaði fyrir þær. Ég get ekki lýst því með orðum hvað ég er þakklát fyrir vinkonur mínar.“
Ákváðum að eignast ekki fleiri börn
„Í desember fyrir ári síðan fór ég í aðgerð og þá var legið tekið. Við hjónin vorum búin að taka þá ákvörðun að eignast ekki fleiri börn svo þá vildi ég gera allt til að fyrirbyggja að ég fengi krabbamein aftur.
Ég þarf að taka inn Letrozol til að drepa niður öll kvenhormón í líkamanum til að frumurnar nái ekki að fjölga sér. Ég verð á þessum lyfjum næstu 10 árin.“
Ketilbjöllurnar björguðu geðheilsunni
Í byrjun janúar 2016 ákváðu Folda og Þórður að flytja heim til Íslands. Þau leigðu sér íbúð en vinir þeirra og vandamenn sáu til þess að gámurinn með búslóð þeirra kæmist heim.
Þórður starfar í dag hjá Icelandair Hotels sem tæknimaður en Folda er öryrki eftir veikindin. Hún er nú í námi hjá Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum þar sem hún nemur sölu-, markaðs- og rekstrarfræði.
„Líðan mín er með betra móti núna og ég er byrjuð í endurhæfingu. Ég hef verið í hugrænni atferlismeðferð hjá Krabbameinsfélaginu og svo hef ég verið að æfa með ketilbjöllur hjá Völu og Gauja á Engjaveginum. Þau eru algjört yndi og þessar æfingar hafa gjörsamlega bjargað geðheilsu minni.
Ég hefði ekki getað byrjað endurhæfinguna nema af því að strákarnir fengu pláss í Krikaskóla, ég er svo þakklát fyrir skilningin sem okkur var sýndur þar.“
Tilhlökkun að halda jólin á Íslandi
„Tíminn frá því að við fluttum heim hefur verið yndislegur. Við nutum íslenska sumarsins í botn, fórum í útilegur og í bústaðaferðir og elsti sonurinn byrjaði í fótbolta. Það er mikil tilhlökkun hjá okkur fjölskyldunni að halda upp á jólin á Íslandi.“
Hvað er fram undan? „Í apríl fer ég í aðgerð sem er uppbygging á brjóstum. Þetta er mjög stór aðgerð sem mun taka um 10 klst og ég mun liggja inni í viku eftir aðgerð ef allt gengur vel. Ég er mjög spennt að sjá hvernig til tekst, það verður gaman að fá kvenlegar línur aftur.“
Mosfellingurinn 22. desember 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs