Mögnuð ferð á Suðurskautið

sudurskautstebbi

Mosfellingurinn Stefán Þór Jónsson kom heim til fjölskyldu sinnar á Þorláksmessukvöld eftir rúmlega tveggja mánaða dvöl á Suðurskautinu.
Stefán starfar hjá Arctic Trucks sem sérhæfir sig í smíði á stórum jeppum og sérhæfðum bílum. „Við höfum verið að smíða bíla fyrir erfiðustu skilyrði í heimi og erum einir í heiminum sem höfum náð því að vera með bíla á Suðurskautinu, sem hægt er að nota til langferða og leiðangra. Við erum búnir að smíða 24 bíla sem eru þarna á svæðinu.
Það á enginn Suðurskautið en það er stærsta óhreyfða náttúruauðlind jarðar. Menn eru búnir að planta sér þarna niður og ætla að gera tilkall til svæðis ef eitthvað breytist í framtíðinni. Þarna eru mörg lönd með vísindastöðvar.“

Útbjó flugvöll á 83. breiddargráðu
„Við vorum þrír Íslendingar sem fórum í þennan leiðangur. Við flugum frá Suður -Afríku til Novolazarevskaya sem er rússnesk­ rannsóknarstöð. Þar er flugvöllur sem kallaður er Novo og er stærsti flugvöllurinn á þessari strandlengju.
sudurstebbiOkkar verkefni var að standsetja bílaflotann sem þarna er, moka bíla upp og gangsetja þá. Við erum með 6-8 bíla á okkar vegum en þeir eru í eigu Rússa og okkar. Stóra verkefnið okkar var svo að keyra upp á 83. breiddargráðu, útbúa þar flugvöll og taka á móti og þjónusta flugvélar og farþega. Aðalástæðan fyrir okkar túr var að þjónusta túristaflug. Það er ekki mikið um ferðamenn á Suðurskautinu en það er alltaf að aukast. Það er mikið til af ríku fólki sem vill komast inn á pól en er ekki að fara ganga neitt þarna.“

Frostið fór mest í 46 gráður
„Vegalengdinn frá Novo að 83. breiddargráðu er 1.700 kílómetrar. Við gerðum tvo bíla tilbúna fyrir þessa keyrslu en við vorum 90 klukkutíma á leiðinni. Við skiptumst á að keyra fjóra tíma í senn, mest keyrðum við 37 klukkutíma í einu. Við tjölduðum einu sinni á leiðinni, við Þórshamar. Einnig stoppuðum á 78. breiddargráðu en vildum ekki tjalda þar vegna kuldans og gistum því bílnum. Ég hugsa að kuldinn hafi mest farið í 45-46 gráður.
Þegar við komum upp á 83. breiddargráðu settum við upp tjaldbúðirnar okkar en þar áttum við eftir að vera næsta mánuðinn. Næsta verkefni var að útbúa flugbraut og við fengum sendar til okkar olíubirgðir með stórri flutningavél. Olíutunnunum var kastað úr vélinni með fallhlíf og svo var það okkar vinna að grafa tunnurnar upp og koma þeim fyrir. Við útbjuggum hálfgerða flugvélabensínstöð en við fengum alls 208 tunnur.“

Ferðamenn á Suðurpólnum
Á meðan Stefán dvaldist á 83. breiddargráðu komu fimm vélar með farþegum til þeirra. „Við settum upp aðstöðu fyrir farþegana, matartjald, klósetttjald og 6 gisti­tjöld. Það eru mest 12 viðskiptavinir í hverri ferð og yfirleitt 2-3 leiðsögumenn. Flugvélarnar fljúga frá Novo til okkar þar sem vélin stoppar í ca. tvo tíma á meðan við setjum á hana eldsneyti. Vélin heldur svo áfram á Suðurpólinn þar sem hún stoppar í tvo tíma. Vélin flýgur svo aftur til okkar á 83. breiddargráðu og fólkið gisti þá eina nótt í tjaldbúðunum. Við þjónustuðum bæði vélina og farþegana þ.e. komum fólkinu fyrir í tjöldunum og græjuðum vélina svo fyrir heimflugið til Novo.“

Ekki í neinu sambandi við umheiminn
„Þetta var mikil og óvenjuleg lífsreynsla. Við vorum á einum kaldasta stað á jörðinni. Einangrunin þarna er ekki fyrir alla. Maður var tiltölulega fljótur að venjast kuldanum en íslenska lopapeysan kom sér vel. Dvölin á 83. breiddargráðu var mögnuð, maður er náttúrlega ekki í neinu sambandi við umheiminn, það er hvorki net né símasamband. Eitt aðalverkefnið var að halda sjálfum sér í lagi og láta daginn líða. Það er sól þarna allan sólarhringinn þannig að maður þarf að búa sér til sína rútínu. Þetta reyndi ekki síður á andlegu hliðina en þá líkamlegu,“ segir Stefán að lokum og á alveg von á því að fara fleiri túra á Suðurskautið.