Móðir allra íþrótta
Spakir menn hafa haldið því fram að körfubolti sé móðir allra íþrótta. Ég veit ekki alveg með það, en hugsanlega er eitthvað til í þeirri fullyrðingu. Yngsti sonur minn er byrjaður að æfa körfubolta hjá Aftureldingu og það er ljóst að það er mikill uppgangur í körfunni í Mos. Á æfingar í hans flokki hafa 20-30 strákar verið að mæta, sem eru talsvert fleiri en þegar sá næst yngsti reyndi að byrja að æfa fyrir nokkrum árum – þá féllu æfingar oft niður vegna þess að of fáir mættu eða þjálfarinn lét ekki sjá sig. En nú er öldin önnur, mikill metnaður í starfinu og áhuginn eftir því.
Körfubolti er ein af þeim ellefu íþróttagreinum sem nú er hægt að æfa hjá Aftureldingu. Sumir vilja meina að við ættum að einbeita okkur að færri í íþróttagreinum og ná þannig meiri árangri í þeim í stað þess að dreifa krökkunum okkar á svona margar íþróttagreinar. Ég skil það sjónarmið og hef stundum verið sammála því. En ég er það ekki lengur. Ég er hlynntur því að við bjóðum upp á eins margar íþróttir og við getum, svo lengi sem það er til áhugasamt og duglegt fólk sem er tilbúið til að vinna í sjálfboðaliðastarfi við að halda utan um allt starfið í kringum þær. Það þarf að vera ástríða í starfinu, annars lognast íþróttin út af.
Með því að bjóða krökkunum upp svona margar íþróttagreinar er líklegt að þau finni íþrótt við sitt hæfi og það er gott fyrir þau, líkamlega, andlega og félagslega. Íþróttir eru frábær forvörn og undirbúningur fyrir lífið. Hreyfing, regla, heilbrigð keppni, félagsskapur, útrás, skemmtun og leikgleði eru orð sem á að vera hægt að tengja íþróttir. Daglegur skammtur af þessu út lífið er nokkuð sem við öll hefðum gott af. Ung sem eldri.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 15. september 2022