Mikil vöntun á geymsluhúsnæði
Hjónin Karl Emilsson og Berglind Helgadóttir reka fyrirtækið Oddsmýri ehf. sem hefur að undanförnu byggt geymslu- og iðnaðarhúsnæði í Desjamýri í Mosfellsbæ.
„Við erum búin að fullklára lóðina Desjamýri 7 en þar eru 96 bil frá 28-43 fm og erum langt komin með Desjamýri 5 en þar erum við með 56 bil frá 43-73 fm. Það er greinilega mikil vöntun á svona húsnæði, við erum búin að selja öll bilin og erum meira að segja með biðlista.
Við leggjum mikinn metnað í að allur frágangur sé snyrtilegur og að viðhald á húsnæðinu sé sem allra minnst,“ segir Karl.
Dótakassar fyrir leikföng
„Það eru ekki bara Mosfellingar sem hafa fjárfest hér í Desjamýrinni heldur fólk af öllu höfuðborgarsvæðinu. Það eru bæði einstaklingar og fyrirtæki sem hafa keypt af okkur. Margir eru að kaupa geymslu fyrir leikföngin sín eða búslóðir en síðan er mikið af iðnaðarmönnum sem fjárfesta í aðstöðu fyrir fyrirtækin sín.
Svæðin eru girt af með girðingu og læstu hliði þannig að það á ekki að vera óviðkomandi umgangur í kringum húsnæðið,“ segir Karl að lokum og er ánægður með uppbygginguna á svæðinu.