Hlutverk okkar að efla tónlistarfræðslu

atligudlaugs

Atli Guðlaugsson skólastjóri Listaskóla Mosfellsbæjar hefur verið viðloðandi tónlist í 55 ár.

Listaskóli Mosfellsbæjar var stofnaður 1. febrúar 2006 en skólinn saman­stendur af leikfélagi, myndlistarskóla, skólahljómsveit og tónlistardeild en allar undirstofnanir skólans nema tónlistardeildin eru reknar sem sjálfstæðar einingar. Markmið Listaskólans er að samþætta starfsemi þessara stofnana og tryggja tengsl þeirra á milli. Þá er lögð áhersla á að fléttuð verði saman starfsemi skólans við grunn- og leikskóla.
Hlutverk skólans er að auka tengsl við aðila utan stofnana bæjarins, ekki síst starfandi listamenn. Það má því segja að Listaskóli Mosfellsbæjar sé regnhlíf yfir fjölbreytta listastarfsemi í Mosfellsbæ.

Atli er fæddur í heimahúsi í Hafnarfirði 10. nóvember 1953. Foreldrar hans eru þau Kamma Karlsson ritari og Guðlaugur Atlason bókbandsmeistari. Atli á fjórar yngri systur, Rósu Láru, Huldu Guðbjörgu, Svölu og Guðlaugu Berglindi.
Atli ólst upp í þriggja hæða húsi við Köldukinn í Hafnarfirði. Lára móðuramma hans bjó á efstu hæðinni og hjá henni átti hann sitt eigið herbergi enda mikill ömmustrákur.

Með ólæknandi hestadellu
„Það var mjög stutt fyrir okkur að fara út í náttúruna og áttum við amma margan göngutúrinn upp eftir Kaldárselsveginum. Þar voru margir frístundabændur með hesta sína og kindur. Var ég gagntekinn af hrifningu á þessum skepnum og dreymdi snemma um að verða bóndi.
Ég stundaði fótboltann í FH fram undir fermingu, en var svo í sveit á sumrin frá 11-18 ára aldurs. Frá þeim tíma hef ég verið með ólæknandi hestadellu og fékk minn fyrsta hest í sumarkaup þegar ég var 15 ára.
Ég hóf skólagönguna í Lækjarskóla en fluttist yfir í Öldutúnsskóla 8 ára. Eftir fermingu lá svo leiðin í Flensborgarskólann þaðan sem ég lauk landsprófi. Árið 1974 útskrifast ég sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík.“

Ný lög tóku gildi
Atli hlaut tónlistaruppeldi sitt að stórum hluta í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og Lúðrasveit Hafnarfjarðar en lauk blásarakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1978, með trompet sem aðalhljóðfæri. Veturinn 1978-79 kenndi hann við Tónlistarskólann í Hafnarfirði og Tónlistarskóla Seltjarnarness en þar stjórnaði hann líka skólahljómsveitinni.
„Haustið 1979 var ég búinn að fá skólavist í háskóla í Bandaríkjunum þar sem stóð til að læra útsetningar, upptökutækni og hljómsveitarstjórn. Á síðustu stundu tóku ný lög gildi í Bandaríkunum sem gengu út á það að útlendingar áttu að víkja fyrir minnihlutahópum og þar með missti ég af þessu tækifæri.“

Tuttugu ár á Norðurlandi
„Ég fékk vinnu á Siglufirði og ætlaði að vera þar í eitt ár en árin á Norðurlandi urðu tuttugu. Á þeim árum stjórnaði ég m.a. Tónlistarskólanum á Akureyri í rúm 5 ár og stofnaði og stjórnaði Tónlistarskóla Eyjafjarðar í 9 ár. Ég var um árabil 1. trompet­leikari í blásarakvintett Tónlistarskólans á Akureyri og í Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Auk þess stjórnaði ég skólalúðrasveitum í 20 ár, Lúðrasveit Akureyrar í 18 ár, hljómsveit Félags harmonikkuunnenda við Eyjafjörð í 12 ár, Karlakór Akureyrar í 5 ár og Karlakór Eyjafjarðar í 3 ár, svo maður hefur kom víða við.“

Ráðgjafi í tónlistarfræðslu
„Eftir að ég flutti suður árið 1999 var ég kennari og lúðrasveitarstjórnandi á Akranesi í tvö ár, skólastjóri í Tónskóla Eddu Borg í eitt ár, ráðgjafi í tónlistarfræðslu í Fræðslumiðstöð Reykjavíkur í tvö ár og hef frá 2004-2006 stjórnað Tónlistarskóla Mosfellsbæjar og Listaskóla Mosfellsbæjar frá stofnun.
Hlutverk tónlistardeildarinnar er að efla almenna tónlistarfræðslu og gera öllum kleift að stunda nám í hljóðfæraleik og söng sem þess óska. Í skólanum er kennt á öll helstu hljóðfæri, auk söngnáms, en kenndar eru 17 námsgreinar við skólann. Nemendur við skólann eru 210 og kennarar 23.
Ég stjórnaði Karlakórnum Stefni í sjö ár en í dag stjórna ég Grundartangakórnum og Sprettskórnum. Ég söng líka og stjórnaði um árabil karlakvintettinum Galgopum í Eyjafirði og var fjögur ár í Borgarkvartettinum.“

Kindurnar í sumarbeit í Kjósinni
„Við hjónin kynntumst 1973 en gengum í það heilaga 8. júlí 1978. Kona mín, Halldóra Bjarnadóttir, er hjúkrunarfræðingur og eigum við tvo syni, Bjarna sem er fæddur 1983 og Guðlaug fæddan 1985. Bjarni á þrjú börn en kona hans er Telma Dögg Ólafsdóttir. Guðlaugur á tvö börn en kona hans er Ásta María Þrastardóttir. Fjölskyldurnar búa í þremur húsum á Tindum á Kjalarnesi.
Við erum hobbýbændur, með hesta og kindur. Því fylgir að sjálfsögðu smalamennska á haustin því kindurnar okkar eru í sumarbeit í Kjósinni.“

Syngur í tríói með sonum sínum
Frá árinu 2003 hefur Atli sungið í tríói með sonum sínum sem heitir Tindatríóið. Synir hans hafa báðir lokið framhaldsprófi í söng frá Listaskóla Mosfellsbæjar og hófu söngferilinn 16 ára gamlir með Karlakórnum Stefni.
Atli hefur einnig samið mikið fyrir karlakóra og ýmsa sönghópa, bæði lög og texta auk þess sem hann hefur verið að útsetja.
Hann hefur einnig verið ritari og formaður í Samtökum tónlistarskólastjóra og varaformaður í Félagi tónlistarskólakennara og stjórnarmaður í Kennarasambandi Íslands.

Á leið til Eyja með barnabarninu
„Helstu áhugamál okkar Halldóru snúa að fjölskyldunni og dýrunum svo og ferðalögum innanlands og utan. Ég hef verið duglegur að ferðast með Topphestum með ferðamenn á sumrin og þá verið kúskur á daginn og kórstjóri á kvöldin. Þá er trompetinn yfirleitt með í för.
Síðastliðið sumar fór ég norður og suður Kjöl sem aðstoðarmaður með Hjalta og Ásu á Kjóastöðum sem hafa ferjað þúsundir túrista fyrir Íshesta í gegnum árin. Þá höfum við hjónin farið í marga góða reiðtúra með félögum í Sprettskórnum. Við eigum líka hlut í jörð við norðanverðan Breiðafjörð, þar sem sumrin eru yndisleg.
Elsta barnabarnið æfir fótbolta með Aftureldingu og er búinn að semja um það við afa sinn að hann fylgi honum á mót í Vestmannaeyjum í sumar og að sjálfsögðu gerir afi það,“ segir Atli að lokum er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 16. mars 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs