Mikil og lífleg starfsemi í Bólinu
Félagsmiðstöðin Ból er búin að vera með starfsemi í þremur félagsmiðstöðvum í vetur enda er Mosfellsbær ört stækkandi bæjarfélag og mikill ávinningur að gera sem best fyrir unga fólkið okkar.
Mosfellingur tók Guðrúnu Helgadóttur forstöðukonu Bólsins tali, gefum henni orðið.
Metþátttaka í alla viðburði
„Þrátt fyrir að fyrri hluti vetrar hafi aðeins verið undir áhrifum frá Covid þá náum við að ljúka þessum skólavetri með magnaðri dagskrá og metþátttöku á alla okkar viðburði.
Það er ekki séns að fara yfir allt það sem er búið að vera í gangi en þrír stærstu viðburðirnir voru núna í lok apríl og maí og það má hrósa unga fólkinu okkar fyrir að vera almennt til fyrirmyndar í öllu því sem þau gera og hér kemur smá upptalning á því sem við m.a. gerðum.“
Samfestingurinn Hann var haldinn dagana 29.–30 apríl. Hann samanstendur af balli þar sem 4.500 unglingar koma saman og skemmta sér og svo er söngkeppni seinni daginn.
Í söngkeppninni keppa unglingar af öllu landinu. Í ár var Samfestingurinn haldinn á Ásvöllum í Hafnarfirði og við fórum með tvær fullar rútur af frábærum unglingum á þennan geggjaða viðburð.
Sundpartý Í samstarfi við starfsmenn Lágafellslaugar var Félagsmiðstöðin Ból með sundpartý fyrir 5.–7. bekk og svo annað daginn eftir fyrir 8.–10. bekk. Þar vorum við með mismunandi skemmtun víðsvegar um laugina eins og t.d. zumba í útilauginni og wipe-out braut í innilauginni.
Tvö hundruð og sextíu börn og unglingar mættu og skemmtu sér saman. Það náðist upp svo mikil stemning að aðrir sundgestir voru farnir að taka þátt. Að loknu partýi fengu svo allir ís.
Rave ball Loksins náðum við að halda aftur ball í Hlégarði, sem var langþráð. Við ákváðum að fara bara „all in“ og leigðum flottan ljósabúnað, fengum góða skemmtikrafta en best var sennilega að unglingarnir fengu tækifæri til að vera DJ í byrjun og keyra ballið í gang.
Tæplega 300 unglingar mættu á ballið og dönsuðu í 150 mínútur samfleytt. Það var alveg magnað að vera þarna og upplifa stemninguna. Margir voru búin að undirbúa sig dagana fyrir ballið því það var hægt að koma til okkar í Bólið og mála með neonlitum á hvíta boli. Þetta gerði það að verkum að það náðist upp stemning strax tveim dögum fyrir ball.
Pop-up félagsmiðstöð í sumar
Því miður er víst komið að því að Bólið fari formlega í sumarfrí. Við erum samt ekki alveg til í sleppa unglingunum okkar þannig að við ætlum að vera með pop-up félagsmiðstöð í sumar í samstarfi við Vinnuskóla Mosfellsbæjar.
Við munum auglýsa á Instagram hvað er á dagskrá og hvar og hvenær við munum hittast. Við ætlum að nýta okkur útivistarsvæðin í Mosfellsbæ. Þannig að ég mæli með að foreldrar fylgi okkur líka á Insta @Bolid270 þannig að þetta fari ekki fram hjá neinum.
Einnig verða fimm námskeið í boði fyrir yngri hópinn okkar. Námskeiðin eru eftir hádegi og hvert námskeið stendur yfir í fjóra daga. Skráning á námskeiðin er í gegnum Sportabler en allar upplýsingar eru á bolid.is.
Opið alla daga
„Opnunartíminn hjá okkur yfir veturinn er alla virka daga frá 9–16 og svo er opið öll virk kvöld, mismunandi kvöld eftir félagsmiðstöðvum, þannig að unglingarnir hafa alltaf samastað. Bólið býður einnig upp á starfsemi fyrir 10-12 ára en allar upplýsingar um starfið er að finna á heimasíðu Bólsins bolid.is.
Í Bólinu starfa 17 starfsmenn sem allir eru frábærir á sínu sviði. Það er mjög lítil starfsmannavelta þannig að börnin og unglingarnir þekkja vel mitt fólk sem er alveg ómetanlegt því þá myndast þetta traust sem er svo mikilvægt í félagsmiðstöðvarstarfi.
Í lokin þá mæli ég með að allir reyni að vera besta útgáfan af sjálfum sér. Ef við komum fram við hvert annað af virðingu, óháð aldri, þá verður sumarið algjör snilld. Svo ef eitthvað er, þá geta unglingarnir alltaf sent á okkur skilaboð á Insta eða leitað til Bólstarfsmanna sem eru í Vinnuskólanum,“ sagði Guðrún að lokum.
KYNNING