Miðflokkurinn lætur verkin tala og stendur við gefin fyrirheit
Nú stefnir í annað hvort óbreytt stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á landsvísu eða óhreina vinstri stjórn.
Við Mosfellingar höfum búið við vinstri stjórn Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ um árabil og við sjáum hve hægt gengur að halda eignum bæjarins við og tryggja afburða þjónustu m.a. á sviði málefna fatlaðra og þeirra sem sárlega vantar félagslegt húsnæði. Biðlistar myndast og skuldir hrannast upp. Það er nú orðið lenska hjá meirihlutanum í Mosfellsbæ að benda á einhvern annan nafla en sinn eigin þegar fjárhagur bæði sveitarfélags og ríkis er kominn í hnút. Hins vegar bera þessir aðilar ábyrgð. Er ekki rétt að láta þá sæta þeirri ábyrgð?
Árið 2002, um það leyti þegar fáir vinstri menn tóku öll völd í Sjálfstæðisflokknum í Mosfellsbæ og fulltrúar Nýs vettvangs, fyrrum R-listans, gengu þar inn, ritaði núverandi bæjarstjóri grein með yfirskriftinni; „Er ekki kominn tími til að skipta?“. Þar mælti bæjarstjórinn eindregið gegn framkvæmdum á Blikastaðalandi og vildi fremur þétta byggð í miðbæ Mosfellsbæjar. Þéttingin hófst reyndar heimavið hjá honum sjálfum. Við vitum öll hvert það verkefni er komið og nú stefnir í enn frekari þéttingu byggðar meðfram borgarlínu sem nú er sögð forsenda fyrir að Blikastaðalandið byggist upp. Hvað með Sundabraut?
Bæjarstjórinn hefur nú tryggt að miklum fjármunum Mosfellinga verði varið í borgarlínu svo verkefnið, sem hann var sjálfur mótfallinn, nái nú fram að ganga. Í sömu grein fjallar hann um alla þá pytti sem hann situr nú sjálfur í, ásamt félögum sínum og Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Hann hefur því tekið bæjarbúa í skógarferð sem endaði í feni, skuldafeni.
Sama virðist stefna í varðandi núverandi stjórnvöld sem orna sér, rétt eins og bæjarstjóri okkar, við þann eld sem brennur vegna COVID-19 heimsfaraldursins og bendir á að í honum brunnu eignir, tækifæri og væntingar bæjarbúa til að lækka skuldir. Þá er fullyrt að þetta sé hvorki ríkisstjórn Íslands né bæjarstjórnarmeirihluta í Mosfellsbæ að kenna. Þetta var allt vegna COVID-19.
Vandinn er í raun og sann fortíðarvandi. Skuldir bæjarfélagsins eru ekki komnar til aðeins vegna COVID-19 og sama með ríkissjóð Íslands. Nú hefur verið gefið á garðann í Mosfellsbæ og enn er gefið. Sama hefur verið gert með uppboðseignum hjá ríkissjóði, fasteignum almennings sem seldar voru á „spott prís“ ásamt gjafafé sem afhent var á báðar hendur í heimsfaraldrinum. Hefur þessu verið rétt skipt. Nei, alls ekki. Þessu er svo ætlað að mæta með aukinni skattlagningu og enn stærra bákni.
Við Mosfellingar getum hvorki búið lengur við vinstri stjórn hér í Mosfellsbæ né á landsvísu. Við þurfum að kjósa flokk sem þorir, flokk sem stendur við gefin fyrirheit og þá sem hafa sýnt og sannað að það er almenningur í landinu sem gengur fyrir. Miðflokkurinn leggur áherslu á að gera skattborgara að eftirlitsaðilum almannafjár, bæta samgöngur án endalausra umferðartafa, skilvirkara heilbrigðiskerfi án biðlista, bætt kjör eldri borgara, Sundabraut og nægt lóðaframboð. Við viljum taka stjórn á landamærum Íslands, auka ferðafrelsi um hálendið og hafna ofríki ríkisvaldsins þegar kemur að hálendi Íslands og orkuöflun. Við viljum einfalda regluverkið og tryggja að bæði sveitarfélög og ríki séu betur rekin en nú í dag. Umhverfismálin eru í ólestri og ímyndunarstjórnmál þar sem hver fjöðurinn á eftir annarri er dregin yfir raunverulega stöðu mála.
Því er rétt að ítreka fyrirsögn bæjarstjórans í Mosfellsbæ frá árinu 2002: „Er ekki kominn tími til að skipta?“.
Sveinn Óskar Sigurðsson,
höfundur er fulltrúi Miðflokksins í bæjarráði
og bæjarstjórn í Mosfellsbæ.