Jafnrétti fyrir okkur öll

Una Hildardóttir

Frá árinu 2006 höfum við haldið Jafnréttisdag Mosfellsbæjar hátíðlegan í kringum 18. september en dagurinn er fæðingardagur Helgu J. Magnúsdóttur fyrrum oddvita Mosfellsbæjar sem lét sig málefni kvenna varða með ýmsum hætti. Hún var til að mynda formaður Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu og formaður Kvenfélagasambands Íslands.
Helga lést árið 1999 og upplifði miklar framfarir í jafnréttismálum á æviskeiði sínu. Í formannstíð Helgu í Kvenfélagasambandinu var Leiðbeiningastöð heimilanna stofnuð og skrifstofa sambandsins flutt að Hallveigarstöðum en hún var ein þeirra baráttukvenna sem gerðu Kvennaheimilið á Hallveigarstöðum að veruleika.

Jafnréttisdagurinn nú á dagskrá grunnskólanna
Þegar lýðræðis- og mannréttindanefnd Mosfellsbæjar tók fyrstu skrefin við skipulagningu dagskrár jafnréttisdagsins í ár varð fljótt ljóst að óvíst væri hvort heimsfaraldur gæti haft áhrif á dagskrána í ár. Ákvað nefndin að í ár yrðu hátíðarhöldin rafræn og þeim streymt á miðlum Mosfellsbæjar.
Það var samhugur um umræðuefnið, stöðu trans barna og ungmenna í Mosfellsbæ og fylltist dagskráin hratt og örugglega. Það er fagnaðarefni, í ljósi ötullar baráttu Helgu frá Blikastöðum fyrir menntun og menntunartækifærum kvenna, að dagskrá jafnréttisdagsins var streymt í öllum grunnskólum bæjarins í dag. Að dagurinn hennar sé nýttur til þess að fræða ungt fólk, draga úr fordómum og auka samstöðu og sýnileika í jafnréttisbaráttunni.
Síðastliðin 15 ár hef ég, líkt og Helga upplifað miklar framfarir í jafnréttismálum, sérstaklega er kemur að breyttu viðhorfi til kynjajafnréttis. Jafnrétti kynjanna er ekki lengur bara spurning um tvö kyn og baráttu kvenna sem enn er ekki lokið.
Með tilkomu laga um kynrænt sjálfræði höfum við styrkt réttindi trans og intersex fólks, sérstaklega barna. Lýðræðis- og mannréttindanefnd þótti þarft að fjalla sérstaklega um stöðu trans barna, auka sýnileika og fræða okkur og aðra til þess að draga úr fordómum og bæta þjónustu og stuðning.

Fögnum fjölbreytileikanum
Á rafrænum jafnréttisdegi veittum við jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar í 15. sinn en í ár hlýtur Hinsegin klúbbur Bólsins viðurkenninguna. Hinsegin klúbburinn var stofnaður árið 2019 og er vettvangur þar sem öll ungmenni á aldrinum 13-18 ára geta verið þau sjálf og er þátttakendum gefið færi á að fræðast frekar um hinsegin málefni.
Starfsemi klúbbsins er kærkomin viðbót í flóru félagsstarfs í Mosfellsbæ en þar er meðal annars staðið að fjölbreyttri fræðslu, m.a. kynfræðslu og hafa samtök eins og #Sjúkást og Eitt líf í komið í heimsókn.
Með viðurkenningunni vill lýðræðis- og mannréttindanefnd Mosfellsbæjar viðurkenna þörfina fyrir öruggan vettvang fyrir hinsegin ungmenni. Tryggjum að við öll, sem búum í Mosfellsbæ, njótum sömu mannréttinda – óháð kyni, kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu eða kyneinkennum.

Una Hildardóttir,
höfundur er formaður Lýðræðis- og mannréttindanefndar Mosfellsbæjar.