Mætum færni framtíðarinnar

varmagrein

Tækni er eitt af stóru málum samtímans og tími gervigreindar og vélmenna að renna upp miklu hraðar en nokkurn óraði fyrir.
Fjórða iðnbyltingin er hafin þar sem áherslan er á sjálfvirknivæðingu sem mun hafa gríðarleg áhrif á vinnumarkað og daglegt líf okkar allra. Sérfræðingar spá því að á næstu 20-30 árum verði meiri tækniframfarir en hafa orðið á síðustu 300 árum. Börn á grunnskólaaldri eru að búa sig undir störf sem eru mörg hver ekki til í dag og því mikilvægt að horfa til framtíðar þar sem grunnþekking á tækni og forritun er forsenda þess að geta tekist á við breytt samfélag.

Upplýsingatækni er orðin órjúfanlegur hluti af samfélaginu og þykir til dæmis ómissandi tæki í atvinnulífinu við miðlun þekkingar, gagna og til samskipta. Menntakerfið hefur ekki náð að fylgja tækniþróuninni eftir og til að breyta því þarf stórátak.
Mikilvægt er að sveitarfélög móti sér skýra stefnu í upplýsingatækni og geri skólunum kleift að búa nemendur undir framtíð sem felur í sér margvíslegar áskoranir. Innleiða þarf heildstæða nýtingu stafrænnar tækni í skóla- og frístundastarf, styrkja innviði skólanna og ráða leiðtoga í upplýsingatækni, nýsköpun og þróun nýrra kennsluhátta.

Innleiðing rafrænnar kennslu og fjölbreyttra kennsluhátta er grundvallarbreyting á skólastarfi og krefst samstillts átaks allra er málið varðar. Stafrænn skóli er ekki tæknilegt vandamál heldur viðhorf og felur í sér fjölmörg tækifæri. Reynsla þeirra skóla sem lengst eru komnir í rafrænni kennslu hér á landi er góð og hefur til að mynda opnað nýja leið fyrir nemendur með námsörðugleika.
Í umhverfi stöðugra tækniframfara verður að gera skólunum kleift að fylgja eftir þessari hröðu þróun og undirbúa börnin undir þær samfélagslegu breytingar sem eru handan við hornið. Leggja þarf áherslu á þá þætti sem greina að fólk og vélar. Öll þekking heimsins er í aðeins 10 sekúndna fjarlægð og því hefur dregið úr þörf fyrir utanbókarlærdóm.
Mikilvægt er að efla færni barnanna í því sem vélarnar eru ekki góðar í, svo sem samskiptum, samvinnu, skapandi hugsun, tilfinningagreind, frumkvæði, aðlögunarhæfni, samhygð og gagnrýninni hugsun.

Stjórn foreldrafélags Varmárskóla skorar á bæjaryfirvöld að hefja vinnu við mótun nýrrar skólastefnu í samvinnu við skólasamfélagið, atvinnulífið og sérfræðinga á sviðinu. Tryggja þarf að sú vinna skili ekki aðeins fögrum fyrirheitum heldur að skólarnir séu í stakk búnir til að mæta þörfum nútímans.
Setjum framtíð barnanna í fyrsta sæti og markmið um að skólar í Mosfellsbæ verði í fremstu röð.

Fyrir hönd stjórnar Foreldrafélags Varmárskóla
Elfa Haraldsdóttir