Betri stjórnmál og Borgarlína

Ólafur Óskarsson

Ólafur Óskarsson

Í grein sem ég ritaði í síðasta tölublað Mosfellings fjallaði ég m.a. um nokkur góð mál sem við bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ höfum lagt fram í bæjarstjórn á þessu kjörtímabili og hlotið hafa brautargengi.
Eitt er það mál sem mér er afar kært að hafa komið að og er mjög gott dæmi um árangursríkt samstarf þvert á flokka og sveitarfélagamörk. Þar er ég að tala um svokallaða Borgarlínu.
Borgarlínan er hluti af nýju svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040. Í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins sitja 2 fulltrúar frá hverju sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu. Á þessu kjörtímabili hef ég verið annar tveggja fulltrúa bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, en hinn fulltrúinn hefur verið Bryndís Haraldsdóttir, eins og kjörtímabilið á undan.
Samstarf okkar hefur verið einstaklega gott og lítið borið á ágreiningi, enda bæði að gæta hagsmuna Mosfellsbæjar. Svipaða sögu má einnig segja af öðrum fulltrúum í svæðisskipulagsnefndinni. Þeir eru fulltrúar stjórnmálaflokka með ólíkar stefnur og sveitarfélaga með mismunandi hagsmuni.
Nefndin fjallar um mál sem gætu haft áhrif á svæðisskipulagið og/eða úrskurðar um hvort þau samrýmist því. Einnig annast nefndin reglubundna heildarendurskoðun og vinnur nýtt svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.
Að mínu mati er þar unnið málefnalega og kallað er eftir faglegri aðstoð þegar það á við, svo sem frá fagráði svæðisskipulagsins eða öðrum sem sérfræðiþekkingu hafa á viðfangsefninu hverju sinni. Í nær öllum tilfellum hefur verið einhugur um niðurstöðurnar. Þannig hefur það líka verið með Borgarlínuna, sem hefur verið eitt af stóru verkefnum nefndarinnar.

Lukkuriddarar
Eftir að hafa setið í svæðisskipulagsnefnd og unnið að málum með þeim hætti sem lýst er hér að ofan er það því með ólíkindum að fylgjast með því nú, rétt fyrir kosningar, þegar nokkrir lukkuriddarar skjóta upp kollinum, einkum í Reykjavík, sem finna Borgarlínunni flest til foráttu. Telja að Borgarlínan sé ekki skynsamleg sem hluti lausnar á þeim umferðarvanda sem aukinn íbúafjöldi á höfuðborgarsvæðinu mun hafa í för með sér á næstu árum. Íbúafjölda sem mun aukast um 70.000 fram til ársins 2040 og síaukinni fjölgun ferðamanna, sem mun þýða að ferðatími muni aukast um 65%.
Tvennt hefur mér fundist einkenna þessa lukkuriddara. Annars vegar einkennist málflutningur þeirra margra af því að þeir virðast ekki hafa kynnt sér þær rannsóknir sem liggja að baki þessu verkefni. Hins vegar draga þeir hreinlega niðurstöður þessara rannsókna í efa út frá eigin tilfinningum eða skoðunum. Í umræðu sem þessari á ekki við að beita tilfinningarökum þegar staðreyndir og rannsóknarniðurstöður liggja fyrir.
Nú veit ég ekkert um skoðanir þeirra sem hyggjast gefa kost á sér í næstu bæjarstjórn Mosfellsbæjar, enda ekki enn að fullu ljóst hverjir það verða. Hins vegar vona ég að þeir sem ná kjöri víki ekki frá þeirri samstöðu sem verið hefur um málið í bæjarstjórn.
Að lokum vil ég hvetja alla sem ekki hafa þegar kynnt sér verkefnið um Borgarlínu að gera það hið fyrsta því það er mín reynsla að þeir sem leggja í þá vinnu átta sig fljótlega á hve brýnt og gott verkefni þar er á ferðinni.

Ólafur Ingi Óskarsson,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ.