Lýðræði og mannréttindi varða okkur öll
Ein af meginkröfum okkar tíma er aukið lýðræði, samráð og upplýsingar um athafnir stjórnvalda.
Þar gegna sveitarfélög mikilvægu hlutverki og ber að tileinka sér markvissar aðferðir til íbúasamráðs. Þau mega aldrei missa sjónir af því að þeirra hlutverk er að taka ákvarðanir út frá mati á heildarhagsmunum.
Lýðræðis- og mannréttindanefnd hefur verið sett á stofn hjá Mosfellsbæ. Nefnd þessi er ný og er henni falið að fara með verkefni lýðræðis- og mannréttindamála fyrir hönd bæjarstjórnar eftir því sem nánar er kveðið á um í samþykkt bæjarstjórnar svo og í samræmi við lög um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994.
Auk þess fer nefndin með jafnréttismál eftir því sem kveðið er nánar um í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. lög nr. 10/2008. Nefndin sinnir lýðræðismálum sem áður voru á borði bæjarráðs svo og jafnréttismálum sem voru á borði fjölskyldunefndar.
Það er m.a. hlutverk og verkefni nefndarinnar að gera tillögur til bæjarstjórnar um stefnu Mosfellsbæjar í lýðræðis- og mannréttindamálum og jafnframt að hafa eftirlit með að stefna bæjaryfirvalda í málaflokknum sé haldin á hverjum tíma með því að leggja reglubundið mat á stöðu málaflokksins og gera þá tillögur um úrbætur ef á þarf. Nefndinni er einnig falið að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar eigi þannig jafnan möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni.
Það er eitt af markmiðum Vina Mosfellsbæjar að virkja lýðræðið með opinni, gegnsærri og gagnvirkri stjórnsýslu og því fögnum við stofnun þessarar nefndar.
Ég óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi árum.
Margrét Guðjónsdóttir
Varabæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar og aðalmaður í lýðræðis- og mannréttindanefnd.