Litið yfir heilsuárið 2018
Eins og undanfarin ár var ýmislegt spennandi í boði í heilsubænum Mosfellsbæ þegar kemur að heilsueflingu og vellíðan bæjarbúa.
Leikfiminámskeið fyrir 67+
Rannsóknir hafa sýnt mikinn ávinning af fjölþættri líkamsrækt fyrir elsta aldurshópinn og því var ýtt úr vör tilraunaverkefni á vegum Félags aldraðra í Mosfellsbæ (FaMos), Mosfellsbæjar og World Class nú á haustmánuðum.
Öllum Mosfellingum 67 ára og eldri var boðið að kaupa þriggja mánaða kort með góðum afslætti í World Class og réð Mosfellsbær sérstaka íþróttakennara til að halda utan um hópinn. Þetta tilraunaverkefni tókst svo vel að það mun verða framhald á.
Gulrótin 2018
Heilsudagurinn var haldinn í lok maí og hófst með hressandi morgungöngu í samstarfi við Ferðafélag Íslands. Einnig var blásið til glæsilegs málþings í Listasalnum þar sem við heyrðum m.a. af áhugaverðum heilsuverkefnum í skólum bæjarins og kynntumst síðan (góð)mennsku, góðum samskiptum, siðum og framkomu að hætti Bergþórs Pálssonar og Alberts Eiríkssonar. Síðast en ekki síst var Gulrótin, lýðheilsuviðurkenning Mosfellsbæjar, afhent í annað sinn.
Verðlaunahafarnir voru Guðjón Svansson og Vala Mörk en þau hafa svo sannarlega látið sig heilsu og vellíðan varða, m.a. með rekstri Kettlebells Iceland, og þykja einstaklega hvetjandi, áhugasöm, fagleg og flottar fyrirmyndir þegar kemur að heilsusamlegum lífsstíl.
Fjölskyldutímar að Varmá
Þetta frábæra verkefni hefur verið við lýði síðan árið 2015 og er óhætt að segja að það hafið notið einstakra vinsælda hjá fjölskyldum í Mosfellsbæ.
Um er að ræða opna tíma á sunnudagsmorgnum yfir vetrartímann fyrir alla fjölskylduna þar sem horft er sérstaklega til grunnskólanemenda. Að tímum loknum er svo frítt í Varmárlaug fyrir alla fjölskylduna og hvetjum við Mosfellinga til að nýta þetta kostaboð og skemmta sér saman.
Hreyfivika UMFÍ
Við tókum að sjálfsögðu þátt í þessu verkefni eins og síðustu ár og það er skemmst frá því að segja að dagskráin var stórglæsileg og þátttakan hefur aldrei verið betri. Hjartans þakkir Mosfellingar!
Lýðheilsugöngur FÍ
Ferðafélag Íslands stóð fyrir Lýðheilsugöngum á landsvísu alla miðvikudaga í september og hér í bæ var gengið frá Reykjalundi undir leiðsögn heimamanna. Óhætt er að segja að Mosfellingar hafi tekið þessu framtaki vel og stóðu göngugarpar bæjarins svo sannarlega undir merkjum.
Hér hefur verið stiklað á stóru og hlökkum við til þess sem árið 2019 mun bera í skauti sér. Við þökkum ykkur fyrir frábært samstarf og velvilja og óskum ykkur heilbrigði og gleði á nýju ári.
Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ