Lista- og menningarfélag Mosfellinga
Menning er hluti af hinu daglega lífi og skilgreiningar á menningu eru margar og jafnvel ólíkar.
Menning er mjög vítt hugtak sem tekur til nær allra þátta samfélagsins. Í okkar huga er menning þeir þættir sem einkenna samfélag okkar.
Hér í Mosfellsbæ eru margir kórar þar sem fólk kemur saman og syngur, hér eru göngu- og hlaupahópa, hópar eldri og yngri sem hittast, lesa, prjóna eða föndra saman. Starfandi félagasamtök eru mörg og ólík og hér búa og starfa margir og ólíkir listamenn og þessir hópar einkenna Mosfellsbæ.
Hópur Mosfellinga hefur áhuga á stofnun Lista- og menningarfélags Mosfellinga.
En áður en við stofnum félagið viljum við fá ykkur með okkur til að móta tilgang og hlutverk félagsins. Til að byrja með ætlum við að vera með hugarflugsfund fimmtudaginn 20. janúar og í framhaldi er fyrirhugaður stofnfundur félagsins þann 02.02.2022. Upplýsingar um staðsetningu hugarflugsfundarins verða í næsta Mosfellingi.
Okkar hugmynd með Lista- og menningarfélaginu, sem er ópólitískt, er að efla menningar- og listastarfsemi í Mosfellsbæ og stuðla að auknu framboði og fjölbreytileika í menningar- og listalífi bæjarins.
Kæru Mosfellingar við vonum að þið takið vel í þessa tillögu okkar og verðið með í að efla til muna lista- og menningarlíf okkar Mosfellinga í Mosfellsbæ.
Davíð Ólafsson