Leikskólastörf eru láglaunastörf
Fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins og í langflestum fjölskyldum eru börn sem ganga í leik- og grunnskóla. Bæði skólastigin eru menntastofnanir sem hafa þann tilgang að börn njóti alls þess besta sem bernskan hefur upp á að bjóða.
Í Mosfellsbæ er gott að búa með börn og öll viljum við skapa þeim bestu mögulegu aðstæður í skólagöngu þeirra, frá tveggja til sextán ára aldurs. Bærinn hefur nýlega innleitt ungbarnaleikskóla sem er stórt skref fram á veginn fyrir fjölskyldur bæjarins.
Leikskólar í Mosfellsbæ eru sjö talsins og kjölfesta þeirra er kennarar og aðrir starfsmenn, faglært og ófaglært fólk sem leysir störf sín af alúð og eljusemi. Mikil gleði og kraftur ríkir í leikskólum bæjarins enda gefandi starf að kynnast öllum þeim litlu einstaklingum sem mæta þar hvern dag með bros á vör.
En leikskólastörf eru láglaunastörf og að mestu leyti kvennastörf. Vegna lágra launa er starfsmannavelta mikil og álagið segir til sín. Oft reynist erfitt að fá fagmenntað starfsfólk og Mosfellsbær er þar ekki undanskilinn.
Það ætti að vera forgangsmál allra sveitarfélaga að bæta kjör láglaunastétta og hækka laun leikskólakennara svo þau verði samkeppnishæf. Grípa þarf til markvissra aðgerða hér í bænum, starfsfólk þarf að fá afslátt af leikskólagjöldum, skoða þarf aðrar kjarabætur og veita þarf svigrúm til að auka undirbúningstíma starfsmanna. Önnur nágrannasveitarfélög hafa farið þessa leið, það eina sem þarf er vilji og staðfesta til að gera slíkt hið sama.
Katrín Sif Oddgeirsdóttir, skipar 4. sæti á lista VG í komandi kosningum.