Látum kerfin ekki þvælast fyrir okkar veikasta fólki
Einn mælikvarði á velsæld þjóða er hvernig komið er fram gagnvart þeim sem veikust eru. Hvernig til tekst að skapa þeim eins gott líf og aðstæður leyfa hverju sinni. Flest erum við sammála um að þetta er markmið sem við eigum að setja okkur. En hvernig tekst okkur til?
Ríkið vill spara sér fé til hjúkrunarheimila
Samkvæmt lögum skipta ríki og sveitarfélög með sér verkum við þjónustu fyrir veika, fatlaða og aldraða. Skipting á því hver sér um hvað er bundin í lög. Þannig er starfsemi hjúkrunarheimila á forræði ríkisins. Hins vegar hefur það atvikast þannig að sveitarfélög víða um land hafa tekið að sér að reka hjúkrunarheimili og gert samning um þann rekstur við ríkið til að flýta fyrir uppbyggingu þeirra. Það á t.d. við hér í Mosfellsbæ þar sem bærinn er ábyrgur fyrir rekstri hjúkrunarheimilisins Hamra. Mosfellsbær hefur líkt og fleiri sveitarfélög deilt við ríkið um framlög til reksturs þessara heimila.
Ríkið skammtar of lítið fé til þess að veita veikasta fólkinu okkar á hjúkrunarheimilum mannsæmandi þjónustu, það er öllum ljóst. Þannig hafa sveitarfélög verið nauðbeygð til þess að nota útsvarstekjur til þess að brúa bilið. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi lofað því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila hefur biðin eftir efndum verið löng. Biðin bitnar á öldruðu og mjög veiku fólki.
Aldraðir í tómarúmi
Þjónusta við aldraða skiptist á milli sveitarfélaga og ríkisins þannig að ríkið sér um heilbrigðisþjónustu en sveitarfélög sjá um aðra nauðsynlega þjónustu fyrir aldraða. Ódýrast og best er að hjálpa fólki að búa heima hjá sér eins lengi og unnt er. Fyrir fólk fylgir því í flestum tilfellum aukin lífsgæði að fá að vera lengur heima hjá sér.
Til að fólk geti verið lengur heima þarf að vera fyrir hendi þétt samstarf við heilsugæslur um nauðsynlega samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu. Þarna þarf samstarf ríkis og sveitarfélaga að vera öflugra. Þetta er nauðsynlegt að laga.
NPA samningar stranda á ríkinu
Málefni fatlaðra eru hins vegar á forræði sveitarfélaga sem fá framlög úr framkvæmdasjóði fatlaðra til þess að fjármagna þá þjónustu. Ein af þeim þjónustum sem fötluðu fólki stendur til boða eru NPA samningar en það er skammstöfun fyrir notendastýrða persónulega aðstoð. Fólk sem þarf á aðstoð að halda getur þannig gert samninga um þjónustu. Það stýrir því sjálft hvar það fær aðstoð, hvenær, hvernig og hver aðstoðar.
Slíkir samningar eru fyrir fólk sem þarf töluverða aðstoð í daglegu lífi og skiptir sköpum að þessi aðstoð sé veitt. Sveitarfélög kosta þessa þjónustu á móti ríkinu sem borgar 25%. Ríkið hefur hins vegar takmarkað fjölda samninga sem gerðir eru og afleiðingin af því er að sveitarfélög hafa hætt að gera fleiri samninga þar til ríkið stendur við sitt. Félagsmálaráðherra þarf að gera betur. Þetta bitnar á fötluðum.
Lögum kerfin
Fólk á ekki að vera fórnarlömb kerfislægs vanda í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Við sem erum kosin á Alþingi og í sveitarstjórnir eigum að gera betur og laga þetta kerfi. Það skiptir fólk sem notar þjónustuna eða borgar fyrir hana ekki máli úr hvaða vasa er borgað heldur að þjónustan verði veitt með skilvirkum hætti þannig að velsæld fólks verði hámörkuð.
Það þarf skýrari verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Ríkið þarf að veita meira fé í hjúkrunarheimili. Sveitarfélög þurfa meira fé til þess að sinna öldruðum heima og að uppfylla skyldur sínar gagnvart fötluðu fólki. Ég mun gera að forgangsmáli á næsta kjörtímabili að laga þessi kerfi.
Valdimar Birgisson,
bæjarfulltrúi Viðreisnar.