Kynslóðaskipti í forystusveit Vina Mosfellsbæjar
Vinir Mosfellsbæjar er óháð framboð, skipað íbúum sem vilja bænum sínum allt það besta. Fólkið sem skipar listann kemur úr ýmsum áttum, það er með margvíslega reynslu og menntun.
„Við eigum það sameiginlegt að vilja styrkja samfélagið og innviði stjórnsýslunnar og starfa í þágu bæjarbúa. Leiðarljós okkar eru að handleika mál af heiðarleika, leita þekkingar í allri ákvarðanatöku og ástunda lýðræðislega umræðu og gagnsæi.“
Kynslóðaskipti verða í forrystusveit Vina Mosfellsbæjar þar sem Stefán Ómar Jónsson, oddviti listans síðustu fjögur ár, færir sig lítið eitt aftar á framboðslistanum að eigin ósk. „Reynsla mín í sveitarstjórnarmálum hverfur ekki á braut heldur mun ég veita nýjum frambjóðendum stuðning og tryggja yfirfærslu þekkingar,“ segir Stefán Ómar. „Vinir Mosfellsbæjar ganga til kosninga með sterkan og endurnýjaðan lista. Við munum kappkosta að reka baráttuna nú sem fyrr af heiðarleika þar sem farið verður í boltann en ekki manninn.
Tilbúin að leggja mitt af mörkum
Dagný Kristinsdóttir tekur við af Stefáni Ómari í forystu Vina Mosfellsbæjar. Dagný hefur búið í Mosfellsbæ síðan 2004, gift Hauki Erni Harðarsyni og eiga þau þrjú börn.
„Ég er menntaður grunnskólakennari, með meistarapróf í Forystu og stjórnun og viðbótar diplómu í Opinberri stjórnsýslu. Ég hef starfað innan skólakerfisins síðan árið 2007 en í dag starfa ég sem skólastjóri Hvassaleitisskóla í Reykjavík, það er krefjandi en um leið afskaplega skemmtilegt og gefandi starf.“
„Í rúman áratug hef ég haft það að leiðarljósi að stíga út fyrir þægindarammann og segja já við áskorunum. Það hefur leitt mig á nýjar slóðir, eins og þær sem ég feta nú. Góður maður sagði að það væri gott að búa í Kópavogi – en það er líka gott að búa í Mosfellsbæ. Ég er tilbúin að leggja mitt af mörkum til að bæta samfélagið og gera bæinn okkar enn betri til að búa í.“
Erum við ekki öll vinir Mosfellsbæjar?
Guðmundur Hreinsson skipar annað sæti listans.
„Ég er menntaður byggingafræðingur og húsasmíðameistari ásamt því að vera með kennaramenntun frá HÍ. Ég er giftur Jónu Maríu Kristjónsdóttur og eigum við þrjú börn. Við erum búsett í Mosfellsdal ásamt einu barni okkar en tvö börn okkar eru flutt að heiman og búa í Helgafellshverfi.“
Ég starfa sem kennari við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, er stundakennari við Háskólann í Reykjavík auk þess sem ég rek litla byggingafræðiþjónustu.
Mín helstu áherslumál í sveitarstjórnarmálum eru umhverfis- og skipulagsmál ásamt menningarmálum. Ég hef mjög gaman af því að ganga og á fjöll auk þess sem ég sinni tónlistargyðjunni með ýmsum hætti.
Erum við ekki öll Vinir?
Framboðslisti Vina Mosfellsbæjar
1. Dagný Kristinsdóttir
2. Guðmundur Hreinsson
3. Katarzyna Krystyna Krolikowska
4. Michele Rebora
5. Kristín Nanna Vilhelmsdóttir
6. Stefán Ómar Jónsson
7. Kristján Erling Jónsson
8. Ásgerður Inga Stefánsdóttir
9. Óskar Einarsson
10. Rakel Baldursdóttir
11. Kristinn Breki Hauksson
12. Vilhelmína Eva Vilhjálmsdóttir
13. Sigurður Eggert Halldóruson
14. Olga Jóhanna Stefánsdóttir
15. Lárus Arnar Sölvason
16. Jógvan Hansen
17. Sandra Rut Falk
18. Björn Óskar Björgvinsson
19. Andri Gunnarsson
20. Kristín Rós Guðmundsdóttir
21. Þórunn Ísfeld Þorsteinsdóttir
22. Úlfhildur Geirsdóttir