Kyndill opnar netsölu á flugeldum

Félagar úr Kyndli eftir vel heppnaða flugeldasölu í fyrra.

Björgunarsveitin Kyndill hefur haft í nógu að snúast á liðnu ári. Strax í janúar geisaði vonskuveður um landið allt og bárust sveitinni 20 útköll vegna þess, bæði óveðursaðstoð og lokanir á heiðum. Einnig var mannskapur sendur vestur á Flateyri þar sem snjóflóð féll í byggð.
Í maí varð bruni í fjarskiptaherbergi í húsnæði Kyndils. Staðbundinn eldur en mikið reyktjón. Kyndill var lamaður í rúman mánuð. Sem betur fer er lítið um útköll á þessum árstíma. Húsið var reykþrifið og tekið í gegn. Allnokkur búnaður skemmdist í brunanum og er enn verið að byggja hann upp.

Allar fjáraflanir fallið niður
Vegna Covid-19 hefur verið sett takmörkun á æfingar og vinnukvöld allt síðasta ár og á tímabili lá öll starfsemi okkar niðri nema að fámennir hópar voru sendir í útköll, þar sem gæta þurfti ítrustu sóttvarna.
Allar helstu fjáraflanir Kyndils féllu niður þetta árið þar á meðal Tindahlaupið og salan á Neyðarkallinum en henni hefur verið frestað fram í febrúar 2021.

Flugeldasalan helsta tekjulindin
Vegna aðstæðna og fjöldatakmarkana mun björgunarsveitin bjóða upp á netsölu í fyrsta skipti: www.flugeldar.kyndillmos.is.
Netsalan mun hefjast 20. desember en auk þess verða báðir sölustaðir okkar opnir 28.-31. desember.
Sala á flugeldum hefur um árabil verið helsta tekjulind Kyndils og gerir hún sveitinni kleift að halda úti öflugu starfi allt árið um kring. Starfið er sjálfboðastarf og að baki hvers verkefnis liggja margar klukkustundir af vinnu sem að félagarnir hafa gefið af sér.
Mosfellingar eru hvattir til að vera tímanlega í innkaupum þetta árið og styrkja björgunarsveitina Kyndil með flugeldakaupum. Netverslunin opnaði 20. desember og verða vörurnar afhentar á milli hátíðanna.