Kristín Einarsdóttir hlýtur Gulrótina
Heilsudagurinn í Mosfellsbæ var haldinn 27. maí. Dagurinn hófst með morgungöngu og endaði með málþingi í Listasalnum.
Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður hélt fyrirlestur og Gulrótin var afhent.
Gulrótin er lýðheilsuviðurkenning sem ætlað er að hampa einstaklingi, hópi, fyrirtæki eða stofnun fyrir brautryðjendastarf í þágu heilsueflingar og bættrar lýðheilsu íbúa Mosfellsbæjar.
Það eru Heilsuvin og Mosfellsbær sem standa að baki viðurkenningunni sem felur í sér þakklæti fyrir frumkvæði og störf í anda lýðheilsu og á jafnframt að vera hvatning til allra á þessum vettvangi í bæjarfélaginu.
Leikur að læra og Morgunfuglar
Þetta er í þriðja sinn sem viðurkenningin er veitt en hana hafa hlotið Svava Ýr Baldvinsdóttir íþróttakennari sem hefur m.a. séð um Íþróttaskóla barnanna hjá Aftureldingu í fjöldamörg ár og hjónin Guðjón Svansson og Vala Mörk hjá Kettlebells Iceland.
Í ár það Kristín Einarsdóttir, íþróttakennari, sem hlýtur viðurkenninguna fyrir óendanlegan drifkraft og frumkvæði að aukinni hreyfingu barna og fullorðinna í gegnum kennsluaðferðina „Leikur að læra“ og skokkhópinn Morgunfuglana.
Í rökstuðningi með tilnefningunni segir að hún hafi unnið ötullega að því að innleiða kennsluaðferðina Leikur að læra í leik- og grunnskóla á Íslandi. Aðferðin nýtir hreyfingu og leik markvisst í námi barnanna og miðar að því að efla líkamlega, andlega og félagslega vellíðan þeirra. Hún hefur síðustu ár haldið úti námskeiðum í aðferðinni fyrir kennara á Spáni og eru þeir ófáir kennarnir sem hafa nýtt sé þau.
Ekki nóg með það heldur hefur hún einnig haldið úti hlaupahópnum Morgunfuglunum hér í Mosfellsbæ.