Kosningavor

Bjarki Bjarnason

Á almennum félagsfundi VG í Mosfellsbæ, sem haldinn var 12. mars sl., var framboðslisti félagsins í komandi kosningum samþykktur einróma. Listann skipa 22 einstaklingar, í samræmi við fjölgun bæjarfulltrúa úr 9 í 11.

Við erum afar þakklát fyrir það traust sem okkur er sýnt við að leiða listann, hann er skipaður einstaklingum úr ýmsum stéttum samfélagsins, þeir hafa svipuð lífsviðhorf þar sem félagslegt jafnrétti, samfélagsleg ábyrgð og umhverfismál eru sett á oddinn.

VG hefur starfað í meirihluta bæjarstjórnar á þessu kjörtímabili; á því tímaskeiði hefur fjölmargt áunnist, má þar nefna byggingu Helgafellsskóla, byggingu knatthúss á Varmársvæði sem var vígt haustið 2019, unnið hefur verið markvisst að friðlýsingu Leiruvogs og afar vönduð umhverfisstefna bæjarins verið samþykkt. Um leið og við horfum stolt um öxl lítum við til framtíðar, hafin er stefnumótunarvinna hjá VG-Mos fyrir komandi kosningar og mun niðurstaða þeirrar vinnu birtast í stefnuskrá framboðsins.

Kolbrún Ýr Oddgeirsdóttir

Veturinn hefur verið óvenju rysjóttur að þessu sinni og veður bæði grimm og dimm á köflum. En senn snúum við baki við vetrinum og vorið tekur við – það verður kosningavor. Að þessu sinni verður það ekki einungis grænt – heldur vinstri grænt!

Bjarki Bjarnason, skipar 1. sæti V-lista.
Kolbrún Ýr Oddgeirsdóttir, skipar 2. sæti V-lista.