Komdu og vertu með!

Hanna Björk Halldórsdóttir

Íþróttastarf á Íslandi er og hefur alltaf verið að miklu leyti byggt upp með aðkomu sjálfboðaliða.
Foreldrar og forráðamenn iðk­enda eru vitanlega stærstur hluti þessa hóps en í meistaraflokksstarfinu er þó einnig að finna almennt áhugafólk um íþróttir og „gamlar kempur“, í bland við vini og fjölskyldur leikmanna.

Við hjá Aftureldingu erum ákaflega heppin og ánægð með okkar sjálfboðaliða, drífandi hóp fólks sem er tilbúið að leggja hönd á plóg til að gera íþróttastarfið frábært.
Þetta er þó ekki sérlega stór hópur, því þótt ég segi stolt frá þessum 150 einstaklingum sem vinna hörðum höndum að því að byggja upp starfið, þá er bæjarfélagið okkar ört vaxandi sem þýðir að Afturelding vex með og við fáum fleiri iðkendur.
Allt þetta frábæra fólk sem styður starfið okkar með sjálfboðavinnu sinni þarf að sinna miklum fjölda verkefna, 11 deildir, 18 ráð og 6-9 meistaraflokkar, en fjöldi þeirra fer eftir hversu mörgum U-liðum við teflum fram hverju sinni.

Starfið sem fer fram á skrifstofu Aftureldingar væri annað, líklega ekkert, ef ekki væri fyrir þessa sjálfboðaliða. Við treystum á þau þegar kemur að því að tækla misjöfn verkefni sem þarf að sinna til að hægt sé að halda úti starfinu, en á hverju hausti hefja nýir iðkendur æfingar og félagið stækkar og stækkar.

Þökk sé sjálfboðaliðunum að börnin okkar geta valið úr fjölda íþróttagreina og gengið að því vísu að markið sé sett hátt þegar kemur að gæðum þjálfunarinnar.

Ánægjuvogin gefur okkur vísbendingar um að ánægja með starfið á meðal iðkenda sé yfir meðallagi, og þá er nú hálfur sigur unninn. Því við erum jú að þessu fyrir iðkendur – börnin í bænum. Og þau eru almennt ánægð með félagið sitt, þjálfarana og félagslífið sem fylgir því að vera í Aftureldingu.

Ánægjuvogin er unnin af Rannsóknum og greiningu (R&g) fyrir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ). Rannsóknir og greining hafa lagt spurningalista fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk frá árinu 1992 í rannsókninni Ungt fólk.
Í Ánægjuvoginni felst að spurningum sem tengjast íþróttum og íþróttaiðkun er bætt við spurningalistana. Listarnir voru lagðir fyrir nemendur bekkjanna í febrúar 2020 og var svarhlutfallið 85%. (Tekið af vef ÍSÍ)

Við sem störfum í þessum heimi þekkjum vel mikilvægi þess að iðka íþróttir, að stunda æfingar með þjálfara í skipulögðu starfi. En þau gögn sem Rannsóknir og greining hafa safnað síðan 1992 segja mun merkilegri sögu.
Samkvæmt Margréti Lilju hjá Rannsóknum og greiningu – sem stendur fyrir og framkvæmir Ánægjuvogina – er tómstundastarfið einn af verndandi þáttum íslenska forvarnamódelsins.
„Þannig eru minni líkur á vímuefnaneyslu, betri andleg og líkamleg líðan, betri námsárangur og lengi mætti telja meðal barna og ungmenna sem eru virk í skipulögðu starfi.“ (www.isi.is/fraedsla/anaegjuvogin/)

En betur má ef duga skal.

Við þurfum fleiri sjálfboðaliða! Fleiri hendur vinna létt verk og það vantar fleiri til að létta undir með þeim sem fyrir eru: í foreldraráðin, í heimaleikjaráðin, í hugmyndavinnu og í ýmiss konar tilfallandi verkefni.
Við sem störfum hjá Aftureldingu erum hæstánægð og ákaflega þakklát fyrir alla okkar sjálfboðaliða, en við viljum líka alltaf kynnast fleirum. Við hvetjum því alla foreldra og forráðamenn til að kynna sér starf Aftureldingar og koma og taka þátt í þessu skemmtilega ævintýri með okkur.

Allar deildir og ráð félagsins eru reknar af stjórnum með formönnum, gjaldkerum, riturum og öðrum stjórnarmeðlimum.

Ég skora á þig að hafa samband og vera með!

Hanna Björk Halldórsdóttir
Íþróttafulltrúi Aftureldingar