Aftureldingarhjartað slær sterkt hjá íbúum Mosfellsbæjar

Halla Karen Kristjánsdóttir

Margir Mosfellingar tengja sterkt við Ungmennafélagið Aftureldingu. Flest okkar tengjast félaginu með einhverjum hætti. Það eru núverandi eða fyrrverandi iðkendur, foreldrar, systkini, sjálfboðaliðar, þjálfarar, ömmur og afar. Öll þekkja þau íþróttamiðstöðina að Varmá og svæðið í kring eins og lófann á sér.
Það er samfélagslega mikilvægt fyrir sveitarfélag eins og Mosfellsbæ að vera með íþróttafélag eins og Aftureldingu og íþróttasvæði sem heillar og stendur fyrir sínu.

Er íþróttamiðstöðin að Varmá í sínu besta formi?
Við þurfum að minna okkur á að viðhald er töff og það er ekki nóg að byggja eitthvað og halda því svo ekki almennilega við. Í öllum þessum hraða í samfélaginu okkar og tækniveröld er svo gott að hvíla stundum hugann og hreyfa sig. Hvort sem það er sund, ganga, hjól, hlaup eða að stunda æfingar innan Aftureldingar. Þetta er allt hægt að gera við íþróttamiðstöðina að Varmá.
Mosfellsbær bæði rekur íþróttamiðstöðina að Varmá og sér um uppbyggingu svæðisins auk þess að veita styrki inn í íþrótta- og tómstundastarfsemi í bænum en þar er Afturelding langstærst. Við erum sammála því að þetta skiptir máli. Við erum sammála því að þetta skiptir miklu máli. En það þarf að halda áfram að gera betur og hugsa til framtíðar þegar kemur að aðstöðumálum.

Það er mikil krafa að íþróttamannvirki standist nútímakröfur. Á meðan Mosfellsbær hefur staðið í mikilli uppbyggingu á ýmsum svæðum hefur viðhald að Varmá því miður setið eftir. Það sést best á búningsaðstöðu, aðkomu að húsinu og fleiru. Uppbygging á svæðinu hefur verið í gangi á síðustu árum en að margra mati skortir þar skýra framtíðarsýn.
En nú er kominn tími á breytingar. Við viljum hugsa stórt og móta framtíðarsýn með Aftureldingu sem og stjórnendum um uppbyggingu á íþróttasvæðinu að Varmá fyrir iðkendur og alla bæjarbúa.
Það er nauðsynlegt fyrir hvaða bæjarfélag sem er að vera með öflugt íþrótta- og tómstundastarf fyrir alla, óháð aldri, efnahag eða félagslegum aðstæðum. Það skilar sér margfalt til baka til samfélagsins og gerir einstaklinginn heilsuhraustari bæði á líkama og sál. Með því að stunda íþróttir læra börn og ungmenni að sigra og tapa, setja sig í spor annarra og samvinnu.

Hér fyrir þónokkrum árum heyrði maður og fann að önnur sveitafélög horfðu til íþróttasvæðisins að Varmá með aðdáun.
Við viljum að þannig verði það aftur. Því er framtíðarsýn okkar að láta teikna upp allt svæðið og tímasetja og búa til aðgerðaráætlun til að fylgja eftir. Sú vinna fer fram á samráðsvettvangi Mosfellsbæjar og Aftureldingar. Á þeim vettvangi er þessa dagana verið að endurskoða forgangsröðun á svæðinu þar sem engin tilboð bárust í útboð þjónustubyggingar nú á vordögum.
Við ætlum okkur stóra hluti og höfum metnað og vilja til að bæta íþróttasvæðið að Varmá fyrir alla bæjarbúa.

Halla Karen Kristjánsdóttir
formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar