Kjötbúðin opnar í Mosó
Kjötubúðin mun opna glæsilega verslun í Sunnukrika í næstu viku. Það er Mosfellingurinn Geir Rúnar Birgisson sem er eigandi og rekstraraðili Kjötbúðarinnar.
Geir, sem er kjötiðnaðarmeistari, hefur rekið Kjötbúðina á Grensásvegi síðastliðin 10 ár við góðan orðstír. „Ég byrjaði minn feril í Nóatúni hér í Mosó, þegar búðin lokaði var alltaf draumurinn að opna kjötbúð hér í bænum.
Á þessum tíma var ekkert hentugt húsnæði og úr varð að ég opnaði Kjötbúðina á Grensásvegi og hef rekið hana undanfarin 10 ár,“ segir Geiri. Búðin í Sunnukrika mun verða útibú frá hinni búðinni þar sem öll vinnsla mun fara fram.
Styttra fyrir Mosfellinga
„Við munum vera hér með ferskt kjötborð og allt sem því tilheyrir, meðlæti, sósur og eftirrétti. Það verður styttra fyrir Mosfellinga að ná sér í steik á grillið en stór hópur minna viðskiptavina eru Mosfellingar,“ segir Geiri en þess má geta að Kjötbúðin hefur verið stór styrktaraðili meistaflokks karla í knattspyrnu undanfarin ár og hafa grillaðir hamborgarar frá Kjötbúðinni verið seldir á heimaleikjum við miklar vinsældir.
Í byrjun júní mun Nettó opna verslun í sama húsnæði en fyrir er heilsugæslan og Apótekarinn með starfsemi í húsinu. „Nettó leitaði til mín og sá greinilega hag í því að vera með kjötbúð við hliðina á verslun sinni og ég tel að við eigum eftir að eiga í góðu samstarfi hér. Ég er mjög spenntur að opna en undirbúningurinn er búinn að vera langur. Ég heyri að það spenningur í bæjarbúum og ég er líka rosa ánægður að opna loksins kjötbúð á heimaslóðum,“ segir Geiri að lokum.