Kerti og spil

Staðan er ekki flókin. Jólin eru rétt handan við hornið og þau verða öðruvísi í ár. Það er bara þannig og það þýðir ekkert að æsa sig yfir þessu. Það sem við gerum núna er að finna leiðir til þess að gera jólin eins góð og gefandi fyrir okkur sjálf og okkar fólk og við getum. Við finnum hluti til að gera innan þeirra ramma sem við höfum.

Það má eiginlega segja að það sé verið að færa okkur aftur í tímann. Leyfa okkur að upplifa á eigin skinni aðstæður sem forfeður okkar og mæður bjuggu við. Og við þurfum ekki að fara aftur á steinöld. Segjum að árið sé 1971 og við búum á sveitabæ í Húnvatnssýslu. Eða í Strandasýslu. Þetta er fyrir tíma internetsins, farsíma og sjónvarpsrása. Það var ein sjónvarpsrás til að horfa á, ríkisrásin, ef fólk átti sjónvarpstæki (svarthvítt), það er að segja. Dagskráin þriðjudaginn 21. desember, nákvæmlega 50 árum áður en þessi pistill er skrifaður, byrjaði kl. 20.00 á fréttum. Svo kom veður og auglýsingar. Þáttur um Kildare lækni var næstur á dagskrá áður en sovésk teiknimynd um tískuna gladdi landsmenn. Umræðuþátturinn Sjónarhorn var næst síðastur á dagskrá og frönskukennsla með Vigdísi Finnbogadóttur lokaði dagskránni rúmlega hálf ellefu. Það var ein útvarpsrás á Íslandi á þessum tíma. Dagskrá þess byrjaði kl.13.15 á húsmæðraþættinum.

Hvað gerði fólk í sveitum landsins á jólunum fyrir 50 árum? Það kveikti á kertum, las, spilaði, talaði saman, hreyfði sig, borðaði betri/öðruvísi mat en venjulega og gaf hvert öðru einfaldar gjafir. Auðvitað var meira í gangi í þéttbýlinu á þessum tíma, en mér finnst á einhvern hátt róandi og notalegt að hugsa til baka til þess tíma og aðstæðna sem foreldrar mínir ólust upp við og bera það saman við nútímann. Kerti og spil er málið í ár, njótum!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 23. desember 2021