Breytingar á lyfjaendurnýjunum á Heilsugæslu Mosfellsbæjar

Ívar Marinó Lilliendahl

Kæru Mosfellingar
Hinn 1. janúar næstkomandi verða breytingar á ákveðnum lyfjaendurnýjunum hjá Heilsugæslu Mosfellsbæjar. Ávanabindandi sterk verkjalyf (svo kölluð ópíöt) og ávanabindandi róandi lyf (benzódíasepín) verður ekki hægt að endurnýja nema í bókuðum tíma hjá lækni. Ekki verður hægt að endurnýja lyfin á vaktinni, gegnum síma eða rafrænt gegnum Heilsuveru. Hægt verður að skrifa út lyfin til að hámarki þriggja mánaða í senn, en að þeim tíma liðnum þarf nýtt mat læknis til að ákvarða þörf á frekari meðferð.
Mikil aukning hefur verið á ávísunum slíkra lyfja á síðustu árum (sjá grein í Læknablaðinu 10. tbl. 107. árg. 2021. „Þróun lyfjaávísana á ópíóíðalyf í heilsugæslu á árabilinu 2008 til 2017“ eftir Sigríði Óladóttur og félaga). Mikilvægt er að ávísun lyfjanna sé byggð á reglubundinni skoðun og þörf á lyfjunum endurmetin reglulega. Lyfin geta valdið þreytu, minnisleysi, ávanabindingu, hægðatregðu og ógleði svo fátt sé nefnt. Einnig skerða lyfin færni fólks til aksturs í umferðinni. Þá hefur verið sýnt fram á það að lyfin séu sjaldnast gagnleg í langvinnum verkjavandamálum. Aldraðir eru í sérstakri hættu m.t.t. þessara lyfja þar sem þau auka byltu- og beinbrotahættu og auka hættu á óráðsástandi.

Hörður Ólafsson

Með þessum breytingum á ávísanakerfinu er það von okkar á Heilsugæslu Mosfellsbæjar að auka öryggi okkar skjólstæðinga og veita betri meðferð en áður.
Rannsókn frá Danmörku (Jorgensen VR. An approach to reduce benzodiazepine and cyclopyrrolone use in general practice : a study based on a Danish population. CNS Drugs. 2007;21(11):947-55) og reynsla frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Borgarnesi hafa sýnt fram á að dregið hefur úr notkun þessara lyfja með svipuðum aðgerðum.

Dæmi um lyf sem fara undir breytingarnar eru:
Ópíöt: Parkodin, Parkodin forte, Tramol, Tradolan, Oxycontin, Oxynorm, Contalgin.
Benzódíasepín: Sobril, Albrazolam, Stesolid.

Með von um góðar viðtökur og góða samvinnu.
F.h. Hg Mos

Ívar Marinó Lilliendahl læknir
Hörður Ólafsson heimilislæknir og fagstjóri lækninga