Jóna Margrét keppir til úrslita í Idol
Mosfellingurinn Jóna Margrét Guðmundsdóttir keppir til úrslita í Idol stjörnuleit föstudagskvöldið 9. febrúar en sýnt verður frá keppninni í beinni útsendingu á Stöð 2.
Jóna Margrét er alin upp í Mosfellsbæ til 10 ára aldurs, en býr nú á Akranesi. Foreldrar hennar eru Mosfellingarnir Hjördís Kvaran Einarsdóttir og Guðmundur St. Valdimarsson. Jóna Margrét lauk stúdentsprófi af tónlistardeild Menntaskólans á Akureyri 2023. Eftir MA fór hún til Kaupmannahafnar í söngnám í Complete Vocal Institute.
„Ég var í námi úti í Danmörku þegar umsóknarferlið fyrir Idolið hófst og varð bara óskaplega skotin í þessu og ákvað að sækja um. Fékk svo svar um að ég væri komin inn og þá varð þetta allt svo raunverulegt. Ég er mjög þakklát fyrir það í dag og er ótrúlega stolt.“
Vön að koma fram
„Ég hafði komið nokkuð fram áður en ég fór í Idolið. Var búin að vera mikið á sviði í söngleikjum í Hofi á Akureyri sem LMA setti upp, keppti í söngvakeppnum og komið oft fram á vegum TónAk.
Ég á mér draum um að geta lifað á því að vera tónlistarmaður og þá þarf maður að vera duglegur að koma sér að. Ég hélt eigin útgáfutónleika á Græna hattinum þegar platan mín, Tímamót, kom út 2022. Platan var hluti af lokaverkefni mínu hjá TónAk.“
Allt sem mig dreymir um
„Úrslitakvöldið fer fram með þeim hætti að þrír keppendur koma fram og syngja eitt lag sem við veljum sjálf. Í miðjum þætti verður kosið og einn fer heim og þeir tveir sem eftir standa keppa aftur með því að syngja úrslitalag og aftur er kosið og eftir það verður krýndur sigurvegari Idolsins 2024.
Þetta hefur gengið ótrúlega vel, þetta er náttúrulega allt sem mig dreymir um að gera, að koma fram undir nafninu Jóna Margrét og vera listamaður.
Eins og fram hefur komið í þáttunum þá er þetta mjög, mjög erfitt ferðalag en á sama tíma 100% það sem mig dreymir um. Þetta er alveg magnað ferli og maður kynnist fullt af yndislegu og mjög hæfileikaríku fólki og myndar tengsl við fólk til frambúðar.“
Finnur fyrir ótrúlegum stuðningi
„Það er alveg magnað, ég finn fyrir ótrúlegum stuðningi alls staðar frá. Mosó er alltaf mínar æskuslóðir og ég finn fyrir ótrúlega miklum stuðningi þar en svo hef ég búið á fleiri stöðum og hef mótast þar sem karakter og listamaður og ég mun alltaf tengja mig við þá staði líka.
Ég finn fyrir miklum stuðningi frá öllum þessum stöðum, ég er mjög þakklát fyrir það og mér þykir vænt um það.
Ég ætla svo að nota „platformið“ og halda áfram, gefa út meiri tónlist og vera bara duglegri við að koma fram og trúa og treysta á það sem ég er. Þannig að ef einhvern vantar atriði eða tónlistarflutning þá endilega bara hafið samband.
Ég vil enn og aftur þakka kærlega fyrir allan stuðninginn og ég fer hress inn í úrslitakvöldið,“ segir Jóna Margrét glöð í bragði að lokum.